Auglýsing vegna breytinga á fyrirhuguðum framkvæmdum við Aðalgötu 16b - verndarsvæði í byggð
Umsókn um byggingarleyfi vegna Aðalgötu 16b á Sauðárkróki liggur fyrir hjá byggingarfulltrúa sveitarfélagsins. Framkvæmdirnar eru innan verndarsvæðis í byggð sem er norðurhluti gamla bæjarins á Sauðárkróki sem var staðfest af ráðherra þann 11. febrúar 2020.
Með vísan til 6. gr. laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015, skal sveitarstjórn auglýsa fyrirhugaðar framkvæmdir áður en tekin er ákvörðun um leyfi til framkvæmda. Þannig er almenningi og hagsmunaaðilum veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri við sveitarstjórn áður en ákvörðun er tekin um framkvæmdina.
Eigandi húsnæðisins sækir um leyfi fyrir breytingum á áður samþykktu byggingarleyfi, að breyta húsnæði sem áður hýsti minjasafn í gistiheimili. Umbeðnar breytingar varða fyrirhugaðar viðbyggingar við húsnæðið, til norðurs og suðurs, breytingu á útliti og lóð og er áætlaður verktími 18 mánuðir.
Gögn er varða fyrirhugaða framkvæmd liggja frammi til kynningar frá og með 27. janúar til og með 10. febrúar í ráðhúsi sveitarfélagsins og hér á heimasíðunni. Hægt er að skila inn skriflegum athugasemdum til og með 10. febrúar næstkomandi til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins í ráðhúsið eða á netfangið andrig@skagafjordur.is