Auglýsingar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Aðalgötu 1 og Aðalgötu 16B
Umsóknir um byggingarleyfi liggja hjá byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir við Aðalgötu 1 og Aðalgötu 16B á Sauðárkróki. Framkvæmdirnar eru innan verndarsvæðis í byggð sem er norðurhluti gamla bæjarins á Sauðárkróki sem var staðfest af ráðherra þann 11. febrúar 2020.
Með vísan til 6. gr. laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015, skal sveitarstjórn auglýsa fyrirhugaðar framkvæmdir áður en tekin er ákvörðun um leyfi til framkvæmda. Þannig er almenningi og hagsmunaaðilum veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri við sveitarstjórn áður en ákvörðun er tekin um framkvæmdina.
Við Aðalgötu 1 sækir eigandi lóðar, Sauðárkrókskirkja, um leyfi til að byggja skábraut til bráðabirgða við Safnaðarheimili kirkjunnar en húsið nýtur friðunar samkvæmt lögum um menningarminjar.
Við Aðalgötu 16B sækir eigandi lóðar, Kaupfélag Skagfirðinga, um leyfi til að breyta húsnæðinu sem áður hýsti minjasafn í gistiheimili.
Öll gögn varðandi framkvæmdirnar ligga frammi til kynningar í ráðhúsi sveitarfélagsins við Skagfirðingabraut og hér á heimasíðunni. Hægt er að skila inn skriflegum athugasemdum til og með 15. júlí næstkomandi til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins í ráðhúsið eða á netfangið andrig@skagafjordur.is