Fara í efni

Baldur Hrafn Björnsson ráðinn sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

15.05.2024

Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur ákveðið að ráða Baldur Hrafn Björnsson í starf sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs en staðan var auglýst öðru sinni í apríl sl. Alls bárust fjórar umsóknir um stöðuna þar af drógu tveir umsækjendur umsókn sína til baka.

Baldur er með MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og BSSc gráðu í samfélagsvísindum frá Fróðskaparsetri Føroya. Þá stundar hann nám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri.

Baldur hefur yfirgripsmikla reynslu sem nýtist í starfi. Hann hefur starfað hjá Tryggingastofnun í tæp 10 ár og gegnt þar ýmsum störfum, síðast sem aðstoðarframkvæmdastjóri á fjármála- og rekstrarsviði stofnunarinna. Þar voru hans helstu verkefni áætlanagerð fyrir stofnunina og bótaflokka sem stofnunin greiðir út, eftirfylgni áætlunar, greining og úttektir talnagagna fjárhags, skýrslugerð til stjórnenda og ráðuneytis, innkaup, útboð og samningagerð.
Baldur hefur komið að innleiðingu stórra verkefna hjá Tryggingastofnun svo sem verkefnastjórn flutnings stofnunarinnar í nýtt húsnæði, mótun vinnuumhverfis, tækniumhverfis og aðbúnaðar starfsfólks. Einnig kom hann að mörgum mannauðs- og gæðatengdum verkefnum svo sem mótun viðverustefnu, gerð hæfnimats, innleiðingu gæðahandbókar, mótun og ritun verklagsreglna, leiðbeininga auk þess að hafa haft umsjón með árangursmælingum fyrir stofnunina.

Baldur mun hefja störf sem sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs snemma sumars og tekur við af Margeiri Friðrikssyni sem gegnt hefur stöðunni undanfarin 25 ár en fer nú í starf fjármálastjóra.

Nöfn þeirra sem sóttu um stöðu sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs eru eftirfarandi, í stafrófsröð:

  • Baldur Hrafn Björnsson
  • Marta Mirjam Kristinsdóttir