Fara í efni

Brunavarnir Skagafjarðar fá afhentan nýjan sjúkrabíl

01.09.2020

Brunavarnir Skagafjarðar hafa tekið í notkun nýjan sjúkrabíl, en um er að ræða einn af 25 bílum sem Rauði krossinn er að afhenda um þessar mundir.

Um er að ræða nýjustu gerð af Mercedes Benz Sprinter en útlit þeirra er töluvert frábrugðið því sem almenningur þekkir. Útlitið hefur vakið töluverða athygli, en bílarnir eru gulir á lit með svokölluðu Battenburg mynstri sem gerir bílana sýnilegri í umferðinni. Góð reynsla hefur verið af slíkum merkingum hjá nágrannaþjóðum okkar segir á heimasíðu Rauða krossins. Bílarnir eru merktir Rauða krossinum á Íslandi auk bláu stjörnunnar / stjörnu lífsins, sem er alþjóðlegt merki sjúkraflutningamanna.

Burðargeta nýju sjúkrabílanna er töluvert meiri en eldri bílanna, eykst úr 3.500 í 4.100 kg., sem bætir vinnuumhverfi í bílunum töluvert. Bílarnir eru sérlega vel útbúnir með ýmsar nýjungar sem auka aksturshæfni þeirra. Þar má nefna loftpúðafjöðrun sem gerir bílinn mýkri í akstri og einnig er hægt að hækka og lækka bifreiðina að aftan, sem þýðir að mun þægilegra er að keyra sjúkrabörum inn og út úr bílnum. Bifreiðarnar koma með CANBUS rafrænni stýringu fyrir lýsingu, hita, lofkælingu, loftpúða o.fl. sem hægt er að stjórna frá 5 mismunandi stöðum í bílnum.

Ný hönnun á innréttingum í bílnum hefur það markmið að auðvelda sjúkraflutningarmönnum sína vinnu. Hægt verður að nota bæði hefðbundnar sjúkrabörur og rafmagnsbörur og aukastóll bætist við í vinnurými bíla sem eru með hefðbundnar sjúkrabörur. 

Starfsmenn Brunavarna Skagafjarðar hafa verið að koma fyrir búnaði af ýmsu tagi í bílnum og er óhætt að segja að útkoman sé stórgóð, eins og meðfylgjandi myndir frá Brunavörnum Skagafjarðar sýna.