Byrjað að bólusetja í Skagafirði
Fyrstu skammtar af bóluefninu við COVID-19 frá lyfjaframleiðandanum Pfizer komu í Skagafjörð í morgun og hófst bólusetning stuttu eftir hádegi í dag. Frá þessu er greint á heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands vestra.
Unnið er eftir forgangsröðun sem er í samræmi við reglugerð og tilmælum sóttvarnalæknis. Allir íbúar á dvalar- og hjúkrunarheimilum HSN á Sauðárkróki ásamt læknum og hjúkrunarfólki í bráðaþjónustu fá bólusetningu úr þessari fyrstu sendingu. Áætlað er að bólusetningu ljúki seinna í dag og mun þessi hópur fá aftur bólusetningu eftir 3 vikur.
Halldór Hafstað 96 ára íbúi á hjúkrunardeild HSN Sauðárkróki var fyrstur til að fá bólusetningu gegn kórónuveirunni á HSN Sauðárkróki. Marc Mertola, hjúkrunarfræðingur gaf sprautuna.
Í frétt á heimasíðu HSN segir: "Haldið verður áfram með bólusetningar eftir áramót þegar næsti skammtur af bóluefni berst. Ekki verður hægt að panta bólusetningu heldur verður fólk látið vita hvenær því stendur til boða að mæta og hvar. Við biðjum því fólk vinsamlegast um að hringja ekki í heilsugæslustöðina vegna þessa“