Byggðasafn Skagfirðinga tilnefnt til Safnaverðlaunanna 2016
19.05.2016
Byggðasafn Skagfirðinga hefur verið tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna árið 2016, ásamt Listasafni Reykjavíkur - Ásmundarsafni og sýningunni Sjónarhorni í Safnahúsinu við Hverfisgötu, Reykjavík.
Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Sem fyrr gátu almenningur, stofnanir og félagasamtök sent inn ábendingar um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar.
Í tilnefningunum segir m.a.:
Byggðasafn Skagfirðinga.
Starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga er fjölþætt og metnaðarfull. Þar er fagmannlega að verki staðið og hver þáttur faglegs safnastarfs unninn í samræmi við staðfesta stefnu og starfsáætlanir.
Listasafn Reykjavíkur – Ásmundarsafn
Ásmundur Sveinsson var einn frumkvöðla höggmyndalistar á Íslandi. Honum auðnaðist löng og starfssöm ævi og eftir hann eru listaverk, sem hann tryggði örugga framtíð með því að ánafna þeim Reykjavíkurborg eftir lát sitt, ásamt eintöku húsi sínu við Sigtún í Reykjavík.
Sjónarhorn
Sýningin Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands. Samstarfið markar tímamót í safnastarfi á Íslandi, en afar vel hefur tekist að leiða saman þessar ólíku stofnanir í því markmiði að miðla sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Þá heiðrar sýningin Safnahúsið sjálft á viðeigandi hátt, sem upphaflega var byggt til að varðveita og miðla menningarminjum úr ólíkum áttum.
Nánar má lesa um tilnefningarnar á heimasíðu Byggðasafns Skagfirðinga.