Fara í efni

Dagur íslenskrar tungu

16.11.2021
Skáldið og fræðimaðurinn Jónas Hallgrímsson

Dagur íslenskrar tungu er í dag 16. nóvember, fæðingardagur rómantíska skáldsins Jónasar Hallgrímssonar en hann fæddist árið 1807. Jónas var ekki bara skáld, hann var líka náttúrfræðingur og rannsakaði íslenska náttúru en hann lauk námi sínu í náttúruvísindum frá Hafnarháskóla vorið 1838. Jónas hafði mikinn áhuga á móðurmálinu og var ötull við nýyrðasmíði til að forðast tökuorð m.a. þýddi hann bók um stjörnufræði og þar má finna mikinn fjölda nýyrða s.s. reikistjarna og sporbaugur. Hann var einnig einn af Fjölnismönnum sem störfuðu í Kaupmannahöfn og gáfu út ritið Fjölni.

Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, samkvæmt tillögu menntamálaráðherra frá árinu 1996. Þennan dag eru árlega veittar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslensks máls og efnt til margvíslegra menningarviðburða.

Margir skólar og stofnanir víðsvegar um landið halda dag íslenskrar tungu hátíðlegan og er Skagafjörður þar á meðal.