Dagur íslenskrar tungu
Dagur íslenskrar tungu er í dag 16. nóvember, tileinkaður íslensku. 16. nóvember er fæðingardagur rómantíska skáldsins Jónasar Hallgrímssonar en hann fæddist árið 1807. Jónas lagði mikið upp úr fallegu máli og varðveislu íslenskrar tungu. Auk þess að vera rómað skáld á umbrotatíma í íslensku samfélagi, sjálfstæðisbaráttunni, var hann náttúrufræðingur og rannsakaði íslenska náttúru. Jónas og félagar hans, Fjölnismenn, gáfu út tímaritið Fjölni þar sem þeir héldu á lofti málfræðistefnu sinni. Hann stundaði einnig þýðingar og þýddi meðal annars stjörnufræðirit þar sem hann þurfti að nota málfræðihæfileika sína og búa til nýyrði. Mörg falleg orð eins og aðdráttarafl, þyngdarlögmál, sporbaugur og fleiri eru úr smiðju Jónasar.
Degi íslenskrar tungu verður fagnað í Skagafirði líkt og annars staðar. Dagskrá verður á Löngumýri í kvöld kl. 20 líkt og hefð er orðin fyrir og er dagskráin helguð Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi. Skagfirski kammerkórinn ásamt nemendum 7. bekkjar Varmahlíðarskóla flytja nokkur ljóða hans í tali og tónum og er stjórnandi kórsins Helga Rós Indriðadóttir. Aðgangur er ókeypis.
Í tilefni dagsins verður einnig lesið upp úr nýjum bókum á bókasafninu á Sauðárkróki í kvöld kl. 20. Eftirtaldir höfundar heimsækja bókasafnið og lesa úr nýútgefnum bókum sínum: Gunnar Helgason, Sigríður Hagalín, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir. Einnig verður lesið úr nýútkominni bók Úlfars Þormóðssonar. Skagafjörður kemur töluvert við sögu í nokkrum þessara bóka. Allir velkomnir á bókasafnið.
Margir skólar og stofnanir víðsvegar um landið halda dag íslenskrar tungu hátíðlegan og er Skagafjörður þar á meðal.