Dagur íslenskrar tungu
Dagur íslenskrar tungu er í dag 16. nóvember, fæðingardagur rómantíska skáldsins Jónasar Hallgrímssonar en hann fæddist árið 1807. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, samkvæmt tillögu menntamálaráðherra frá árinu 1996. Markmið dags íslenskrar tungu er að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð.
Jónas lagði mikið upp úr fallegu máli og varðveislu íslenskrar tungu. Auk þess að vera rómað skáld á umbrotatíma í íslensku samfélagi, sjálfstæðisbaráttunni, var hann náttúrufræðingur og rannsakaði íslenska náttúru. Jónas og félagar hans, Fjölnismenn, gáfu út tímaritið Fjölni þar sem þeir héldu á lofti málfræðistefnu sinni. Hann stundaði einnig þýðingar og þýddi meðal annars stjörnufræðirit þar sem hann þurfti að nota málfræðihæfileika sína og búa til nýyrði. Mörg falleg orð eins og aðdráttarafl, þyngdarlögmál, sporbaugur og fleiri eru úr smiðju Jónasar.
Þennan dag eru árlega veittar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslensks máls og efnt til margvíslegra menningarviðburða.
Margir skólar og stofnanir víðsvegar um landið halda dag íslenskrar tungu hátíðlegan og er Skagafjörður þar á meðal.