Fara í efni

Dagur Þór Baldvinsson ráðinn í stöðu yfirhafnarvarðar

13.12.2016

Dagur Þór Baldvinsson ráðinn í stöðu yfirhafnarvarðar

Dagur Þór Baldvinsson hefur verið ráðinn í stöðu yfirhafnarvarðar.  Alls sóttu sjö um starfið.  Dagur Þór er menntaður sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri. Nám í sjávarútvegsfræði er þverfaglegt nám sem tekur á raungreinum, sérgreinum sjávarútvegs og viðskiptagreinum, m.a. bókhaldi, fjármálum, markaðsfræði, rekstrarhagfræði og stjórnun. Sem valgreinar tók hann gæðastjórnun og rekstrarstjórnun. Næsta vor áætlar Dagur að útskrifast úr fjarnámi í APME verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík með IPMA alþjóðlegri vottun samkvæmt stigi D sem er staðfesting á þekkingu á sviði aðferðafræði verkefnastjórnunar.

Í dag starfar Dagur Þór hjá Háskólanum á Hólum og er umsjónarmaður fiskeldistilrauna í Verinu á Sauðárkróki, ásamt því að vera með yfirumsjón með verknámi í diplómanámi fiskeldisdeildar skólans. Hann hefur víðtæka reynslu sem sjómaður og var m.a. vinnslustjóri hjá Brim þar sem hann hafði mannaforráð.

Yfirhafnarvörður starfar hjá Hafnarsjóði Skagafjarðar sem á og rekur tvær hafnir í Skagafirði, á Sauðárkróki og á Hofsósi. Helstu verkefni yfirhafnarvarðar eru daglegt eftirlit og stjórnun á hafnarsvæðum. Daglegt eftirlit með skipum, móttaka þeirra, skráning og afgreiðsla. Umsjón með hafnarmannvirkjum, hafnarvog og vigtun afla. Stefnumótun og áætlanagerð. Gæða- og þjónustustjórnun. Markaðssetning á höfnum í samráði við stjórn. Útskrift reikninga og skráning upplýsinga til gjaldtöku af skipum og vörum. Samskipti við Fiskistofu og aðra hagsmunaaðila.

Dagur Þór er boðinn velkominn til starfa hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.