Eintóm sæla í Skagafirði um helgina
Margir viðburðir eru í Skagafirði þessa helgina eins og margar fleiri helgar þetta sumarið. Sveitasælan í reiðhöllinni Svaðastöðum, Hólahátíð, tónlistarhátíðin Gæran, sögudagur á Sturlungaslóð og Ágústmót UMSS.
Sveitasælan, landbúnaðarsýning og bændahátíð, stendur yfir kl 10-17:30 á laugardaginn og er aðgangur ókeypis. Skemmtileg atriði verða í gangi allan daginn, fjölbreyttar vörur til sölu á handverksmarkaðnum, dýragarður og fleira fyrir börnin, sýningar á hrútum, kálfum og smalahundum, veitingasala Kiwanisklúbbsins Freyju og kynningar fyrirtækja á vörum sínum. Gunnar Bragi Sveinsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra setur sýninguna kl 13. Gæðingamót hestamannafélgsins Skagfirðings er kl 11 og kvöldvaka kl 19:30. Nánar má kynna sér dagskrána hér.
Hólahátíðin og Barokkhátíðin sameinast þetta árið og byrja með barokktónleikum í kvöld kl 20. Pílagrímaganga frá Gröf á Höfðaströnd heim að Hólum hefst kl 10 á laugardeginum og verða Passíusálmar Hallgríms Péturssonar lesnir á leiðinni. Á sunnudaginn er hátíðarmessa kl 14 og hátíðarsamkoma kl 16:30 en þar mun forseti Íslands flytja ávarp. Nánari dagskrá.
Tónlistarhátíðin Gæran hófst í gær með sólóistakvöldi á Mælifelli og í dag verður Páll Óskar með barnaskemmtun á sama stað kl 17. Í kvöld verður tónlistarveisla í húsakynnum Loðskinns á Sauðárkróki þar sem fram koma m.a. Páll Óskar og heimahljómsveitin Contalgen Funeral ásamt fjölda frábærra tónlistarmanna. Tónlistarveislan heldur áfram á laugardagskvöldinu en það er hljómsveitin NYKUR sem mun loka Gærunni þetta árið. Nánari dagskrá.
Árlegur sögudagur á Sturlungaslóð er á laugardeginum en þetta árið er gestum boðið að koma í Geldingaholt kl 14 og fræðast um þá atburði sem þar áttu sér stað á Sturlungaöld. Um kvöldið er Ásbirningablót í Kakalaskála en þar mun Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar flytja erindi og Kvæðamannafélagið Gná kveða af snilld. Nánari dagskrá.
Ágústmót UMSS í frjálsum íþróttum verður á Sauðárkróksvelli á laugardeginum og hefst kl 12. Nánari dagskrá.
Það má því segja með sanni að fjölbreytt framboð viðburða sé um helgina og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.