Elín Berglind ráðin aðstoðarleikskólastjóri Leikskólans Ársala
Elín Berglind Guðmundsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarleikskólastjóri Leikskólans Ársala og mun hún hefja störf þann 15. ágúst næstkomandi. Elín Berglind tekur við stöðunni af Sólveigu Örnu Ingólfsdóttur, sem var nýlega ráðin leikskólastjóri við Leikskólann Ársali.
Elín Berglind lauk B.ed. prófi í leikskólakennarafræðum árið 2008 og fékk leyfisbréf kennara sama ár. Að auki lauk hún námi til viðbótardiplómu í menntavísindum með sérhæfingu í stjórnun og forystu í lærdómssamfélagi frá Háskólanum á Akureyri árið 2019. Elín Berglind hefur tekið fjöldamörg námskeið í gegnum árin, m.a. Tras, Gerd Strand, Íslenska þroskalistann, TMT (tákn með tali) auk annarra styttri námskeiða.
Elín Berglind hefur mikla starfsreynslu af starfi í leikskóla og hefur til að mynda yfir 20 ára samfellda starfsreynslu hjá sveitarfélaginu, en hún starfaði bæði á Furukoti og Glaðheimum áður en leikskólarnir voru sameinaðir í Leikskólann Ársali.
Við bjóðum Elínu Berglindi Guðmundsdóttur hjartanlega velkomna í stöðu aðstoðarleikskólastjóra Ársala og óskum henni velfarnaðar í sínum störfum.