Uppsetning gönguskilta hafin
Eins og allir vita eru í Skagafirði mörg af þekktustu og nafntoguðustu fjöllum á landinu. Meðal þeirra eru Mælifellshnjúkur, Tindastóll, Hólabyrða og Ennishnjúkur. Þessi fjöll og fleiri kalla gönguhrólfa til sín og njóta heilsusamlegar gönguferðir þannig sívaxandi vinsælda meðal almennings og ferðamanna.
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur nú hafið uppsetningu upplýsingaskilta við upphaf gönguleiða á fyrrgreind fjöll. Í morgun voru sett upp slík upplýsingaskilti við upphaf gönguleiða á Tindastól og Ennishnjúk og á næstu vikum verður komið fyrir sambærilegum skiltum við upphaf gönguleiða á Mælifellshnjúk og Hólabyrðu.
Upplýsingaskiltið fyrir gönguleið á Tindastól er rétt neðan stikaðrar leiðar á Stólinn, norðaustan við Hraksíðuá. Upplýsingaskiltið fyrir gönguleið á Ennishnjúk er við bæinn Enni í Unadal.
Gerð skiltanna naut styrks úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, hönnuður þeirra er Árni Tryggvason.