Fara í efni

Landsmótið hefst á Sauðárkróki í vikunni

09.07.2018

Landsmótið er fjögurra daga íþróttaveisla á Sauðárkróki dagana 12. - 15. júlí 2018. Íþróttir og hreyfing verða í aðalhlutverki á daginn. Á kvöldin verður skemmtun og samvera í góðum félagsskap allsráðandi.

 

Allir 18 ára og eldri geta skráð sig, hvort sem þeir eru í íþrótta- og ungmennafélagi eða ekki. Að sjálfsögðu verður margt í boði fyrir mótsgesti yngri en 18 ára. Landsmótið er því frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Landsmótið er tilvalinn vettvangur fyrir vinahópa, starfsmannahópa, stórfjölskylduna eða endurfundi af ýmsu tagi. Á Landsmótinu er tilvalið að styrkja tengslin við vini og vandamenn í góðum félagsskap, hreyfa sig, njóta samverunnar og gleðjast saman. 

 

Þátttakendur mótsins geta keppt í eða prófað fjölda íþróttgreina í bland við götu- og tónlistarveislu. Saman munu gestir Landsmótsins skapa töfrandi minningar. Það verður rífandi fjör og gleði alla daga mótsins. 

Þeir sem skrá sig til leiks búa til sína eigin dagskrá. 

 

Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á sama stað og á sama tíma. Mótið verður með svipuðu fyrirkomulagi og undanfarin ár. Helstu keppnisgreinar verða á sínum stað og verða margfalt fleiri keppnisgreinar, viðburðir og önnur afþreying í boði en verið hefur áður.

 

Á föstudagskvöldið verður götupartí og tónlistarveisla í Aðalgötunni kl. 19:00 – 23:00. Auddi og Steindi, hljómsveitin Albatross og Sverrir Bergmann ásamt gestum sjá um frábæra skemmtun. Aðgangur er ókeypis.

 

Á laugardagskvöldið verður mikil skemmtanaveisla.

 

Kl. 19:30-23:00 verður matarveisla, skemmtun og dans í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Boðið verður upp á veisluhlaðborð úr Matarkistu Skagafjarðar. Veislustjórar verða Gunnar Sandholt og María Björk Ingvadóttir. Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar leikur fyrir dansi. Miðaverð 5.900 kr. eða 4.900 kr. fyrir landsmóts þátttakendur.

 

Seinna á laugardagskvöldinu verður svo ball ársins, en Páll Óskar kemur í íþróttahúsið og sér um fjörið. Húsið opnar á miðnætti og aldurstakmarkið er 18 ár. Miðaverð er 3.900 kr. eða 3.000 kr. fyrir þátttakendur á landsmótinu.

 

Hægt er að skrá sig á landsmót og kaupa aðgang að öllum viðburðum landsmótsins á https://www.landsmot.is