Skráning er hafin í átaksverkefnið V.I.T
14.05.2020
Skráning er hafin í átaksverkefnið V.I.T. þar sem ungmenni fædd 2002 og 2003 geta skráð sig til vinnu í sumar. Verkefnið V.I.T. – Vinna, Íþróttir og Tómstundir verður starfandi sumarið 2020 frá 2. júní til 14. ágúst. Í verkefninu felst að fyrirtæki taki ungmenni fædd 2002 og/eða 2003 í þjálfun og vinnu í allt að 240 tíma á tímabilinu. Viðkomandi fyrirtæki er skuldbundið til að hafa ungmenni í þjálfun og vinnu í að lágmarki 240 tíma yfir tímabilið.
Reglur og skilmálar verkefnisins:
- Umsækjandi þarf að sýna fram á að hann hafi sótt um önnur störf og fengið höfnun. Taka þarf fram nafn fyrirtækis og tengilið.
- Umsækjandi þarf að mæta í atvinnuviðtal hjá tengilið verkefnisins.
- Viðkomandi fyrirtæki er vinnuveitandi ungmennis og gerir við hann ráðningarsamning.
- Vinnuveitandi greiðir ungmenni laun eftir kjarasamningi sem um starf ungmennis gildir. Um önnur starfskjör t.d. neysluhlé o.fl. fer einnig eftir kjarasamningi.
- Vinnuveitandi skuldbindur sig til að þjálfa viðkomandi ungmenni til þeirrar vinnu sem þeim er ætlað að sinna.
- Ungmenni skulu mæta á réttum tíma, hlýða fyrirmælum, tilkynna um forföll sem vinnuveitandi tilkynnir jafnframt tengilið verkefnisins.
- Vinnuveitandi skráir niður tíma og kemur þeim til tengiliðar.
- Ef upp koma mál sem ekki verða leyst á vinnustað skal kalla til tengilið verkefnisins.
- Vinnuveitandi sendir sveitarfélaginu reikning í lok tímabils vegna verkefnisins. Afrit af útgefnum launaseðlum og ráðningarsamningi ungmennis á tímabilinu skulu fylgja reikningi.
Tengiliður verkefnisins er Þorvaldur Gröndal, forstöðumaður Vinnuskóla Skagafjarðar og VITS, sími: 660-4639 eða í valdi@skagafjordur.is