Fasteign á lóð númer 70 við Sauðárhlíð á Sauðárkróki til sölu
Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir til sölu fasteign á lóð númer 70 við Sauðárhlíð á Sauðárkróki, fasteignanr. F2132646, landnr. 144009. Um er að ræða hlöðu sem byggð var árið 1959, u.þ.b. 80 m2 og stendur á 2400 m2 lóð. Ráðstöfun lóðar er bundin því skilyrði að hefðbundinn lóðarleigusamningur verði gerður til allt að 25 ára, sem taki m.a. mið af skilmálum sem koma fram í þessari auglýsingu, skilmálum á heimasíðu sveitarfélagsins og/eða leiða af hugmyndum bjóðanda, sbr. síðargreind greinargerð. Takmörkuð mannvirki verða leyfð á lóðinni, lægri en núverandi hlaða, sem hæfi umhverfinu, skv. nánari skipulagsskilmálum. Heimilt verður að rífa hlöðu ef þurfa þykir.
Markmið með sölunni er m.a. að koma fasteigninni í hendur aðilum sem líklegir eru til þess að nýta fasteignina og tilheyrandi lóð til uppbyggingar og jákvæðra samfélagslegra áhrifa. Við mat á tilboðum verður litið til fjárhæðar tilboðs (40%), nýsköpunar og raunhæfrar atvinnusköpunar (20%), umhverfisvænna lausna varðandi mannvirki og starfsemi og til fegrunar byggingar og umhverfis (20%) sem og til bætts aðgengis almennings að útivist í nágrenninu, utan lóðar og aðgengis fatlaðra að lóð og mannvirkjum (20%). Sjá nánar forsendur við mat Byggðarráðs við úthlutun lóðarinnar neðar í þessari frétt.
Eignin verður afhent í núverandi ástandi. Gert er ráð fyrir að lóðarhafi greiði tengigjöld hita-, vatns- og fráveitu samkvæmt gildandi gjaldskrá Sveitarfélagsins og Skagafjarðarveitna. Ekki er gert ráð fyrir að lóðarleiguhafi greiði gatnagerðargjöld af lóð. Lóðareiga verði skv. lóðarleigusamningi og veitugjöld skv. gildandi gjaldskrá hverju sinni. Ekki er reiknað með umferð eða bílastæðum á lóð, nema fyrir fatlaða og fyrir rekstur (lestun/losun).
Nánari upplýsingar gefur:
Ingvar Páll Ingvarsson ipi@skagafjordur.is
Skriflegum tilboðum skal skilað á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagafjarðar
Skagfirðingabraut 17–21, 550 Sauðárkróki, eigi síðar en 18. mars 2020. Tilboð um eingreiðslu skal fylgja greinargerð um fyrirhugaða framtíðarnotkun bjóðanda.
Áskilið er að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum tilboðum og verður í engu tilviki greitt fyrir að bjóða í umrædda fasteign.
Forsendur við mat Byggðarráðs við úthlutun lóðar að Sauðárhlíð 70, Sauðárkróki. Frestur til umsókna er til 18.03. 2020.
Lóð verður úthlutað til þess sem fær flest stig að mati Byggðarráðs út frá eftirfarandi forsendum:
a) 40 stig fást fyrir að bjóða hæst verð. Sá sem býður tiltekið hlutfall af hæsta verðinu fær sama hlutfall af 40 stigum.
b) 20 stig fær sú umsókn sem skorar hæst fyrir nýsköpun og raunhæfa atvinnusköpun en stig annarra fyrir þennan þátt verða gefin eftir hlutfallslegan samanburð við þessa umsókn.
c) 20 stig fær sú umsókn sem skorar hæst varðandi umhverfisvænar lausnir varðandi mannvirki og starfsemi og fyrir fegrun byggingar og umhverfis en stig annarra fyrir þennan þátt verða gefin eftir hlutfallslegan samanburð við þessa umsókn.
d) 20 stig fær sú umsókn sem eykur og bætir mest aðgengi almennings að útivist í nágrenninu, utan lóðar og aðgengi fatlaðra að lóð og mannvirkjum. Nýtilegar tillögur um notkun nærsvæðisins og framkvæmdir sveitarfélagsins í þess þágu geta veitt stig.
Í tilviki einstaklinga er það forsenda fyrir að fá að koma til greina við úthlutun að umsækjendur leggi fram greinargott greiðslumat banka sem ber með sér að umsækjandi geti staðið undir kaupum á lóðinni og þeim framkvæmdum sem framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir. Í stað greiðslumats getur umsækjandi skilað inn lánsloforði banka um framangreinda fjármögnun sem ekki er bundið öðru skilyrði en því að viðkomandi aðili fái úthlutað viðkomandi lóð.
Sé umsækjandi einstaklingur í rekstri eða fyrirtæki (í rekstri) skal leggja fram afrit af síðasta skattframtali, yfirlýsingu viðkomandi lífeyrissjóða um að umsækjandi hafi staðið skil á afdregnum lífeyrssjóðsiðgjöldum starfsmanna sinna og staðfestingu viðkomandi innheimtuaðila á því að hann sé ekki í vanskilum með skatta, þ.m.t. VSK, útsvar eða fasteignagjöld (eða að vanskil hans nemi fjáræð sem er lægri en kr. 75.000). Í tilviki lögaðila skal skila inn ársreikningi sem skulu vera áritaðir af löggiltum endurskoðanda. Gögn þessi, og eftir atvikum skrifleg greinargerð frá umsækjanda, skulu bera með sér að umsækjandi geti staðið undir kaupum á lóðinni og þeim framkvæmdum sem framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir.