Fara í efni

Félagsleikar Fljótamanna um Verslunarmannahelgina

02.08.2019
Mynd: Facebooksíða Félagsleika Fljótamanna

Það verður gleði og fjör í Fljótunum um Verslunarmannahelgina, en þá fara fram Félagsleikar Fljótamanna, samveru- og sveitahátíð af gamla skólanum.

Fjörið byrjar í kvöld, föstudagskvöld, á flatbökuveislu á Sólgörðum og kl. 21 verða tónleikar með hljómsveitinni Sérfræðingar að sunnan í Félagsheimilinu Ketilási þar sem leikin verður geðgóð hippatónlist úr ýmsum áttum. Dagskrá helgarinnar er hin glæsilegasta og má þar nefna ýmsa tónleika og tónlistarviðburði, Íslandsmót í félagsvist, Tíuþúsund titlar á Ökrum, hestar hitta börn í Langhúsum, Húsdýragarðurinn Brúnastöðum er opinn alla helgina, Hrafna-Flóka gerningur að Ysta Mói, Dalalífs "bar-kviss" á Ketilási, Flótahlaup Orkusölunnar. kjötsúpuveisla aldarinnar, gönguferðir með leiðsögn, fyrirlestrar og opnun sýningar um Guðrúnu frá Lundi á Sólgörðum og lýkur svo hátíðarhöldunum með varðeldi og söng á Lambanesi á sunnudagsköldið.

Enginn aðgangseyrir er á viðburði helgarinnar og sala veitinga er í höndum heimamanna. Ágóðinn rennur til góðra málefna.

Það eru Íbúasamtökin og hollvinir sem standa fyrir Félagsleikum Fljótamanna 2019.

Dagskrá helgarinnar má nálgast hér.