Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2019-2023 samþykkt

13.12.2018

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árin 2019-2023 var samþykkt með fimm atkvæðum við síðari umræðu á fundi sveitarstjórnar 12. desember sl. Fulltrúar VG og óháðra og Byggðalistans óskuðu bókað að þeir sætu hjá við atkvæðagreiðsluna og lögðu fram bókanir við áætlunina. Það gerðu einnig fulltrúar meirihluta sveitarstjórnar. Fundargerð sveitarstjórnar má sjá hér.

Helstu fjárfestingar ársins 2019 eru áframhaldandi framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks og hönnun næsta áfanga hennar, hönnun og upphaf framkvæmda við leikskóla á Hofsósi og við yngra stig Ársala á Sauðárkróki, malbikun á kirkjuplani á Hofsósi, framkvæmdir við sorpmóttökustöð og gangstéttir í Varmahlíð, hönnunarsamkeppni menningarhúss á Sauðárkróki, lok gatnagerðar við Melatún á Sauðárkróki og áframhaldandi framkvæmdir við stækkun hitaveitusvæða Skagafjarðarveitna.

Í fundargerð var eftirfarandi m.a. bókað:

„Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri kynnti fjárhagsáætlunina.

Fjárhagsáætlunin sýnir rekstraráætlun, sjóðsstreymi og áætlaðan efnahagsreikning fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð og stofnanir þess.

Forsendur fjárhagsáætlunar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2019 og áætlunar fyrir árin 2020-2023 byggja meðal annars á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands varðandi verðlags- og launaþróun næstu ára.

Áætlun ársins 2019 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar nemi 5.744 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B hluta, þar af eru rekstrartekjur A-hluta áætlaðar 4.767 m.kr.

Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 5.286 m.kr., þ.a. A-hluti 4.767 m.kr. Rekstrarafgangur A- og B-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er áætlaður 679 m.kr, afskriftir nema 222 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 351 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætluð jákvæð, samtals með 106 m.kr. í rekstrarafgang.

Rekstrarafgangur A-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 422 m.kr, afskriftir nema 129 m.kr., fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 280 m.kr. Rekstrarniðurstaða A hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 13 m.kr.

Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2019, 9.392 m.kr., þ.a. eignir A-hluta 7.253 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 7.003 m.kr., þ.a. hjá A-hluta 6.076 m.kr. Eigið fé er áætlað 2.378 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall því 25,31%. Eigið fé A-hluta er áætlað 1.178 m.kr. og eiginfjárhlutfall 16,24%.

Ný lántaka er áætluð 360 m.kr. hjá samstæðunni í heild og afborganir eldri lána og skuldbindinga verða um 447 m.kr. Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 1.314 m.kr. hjá samstæðunni, þar af 1.201 m.kr. hjá A-hluta. Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 122% og skuldaviðmið 108%.

Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 327 m.kr., og veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 560 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 178 m.kr. hjá samstæðunni í heild.“

Greinargerð sveitarstjóra

Fjárhagsáætlun 2019-2023