Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2021-2024 samþykkt í sveitarstjórn

17.12.2020

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árin 2021-2024 var samþykkt með fimm atkvæðum við síðari umræðu á fundi sveitarstjórnar 16. desember sl. Fulltrúar VG og óháðra og Byggðalistans óskuðu bókað að þeir sætu hjá við atkvæðagreiðsluna og lögðu fram bókanir við áætlunina. Það gerðu einnig fulltrúar meirihluta sveitarstjórnar. Fundargerð sveitarstjórnar má sjá hér. 

Gert ráð fyrir að sveitarsjóður og undirfyrirtæki fjárfesti á árinu 2021 fyrir 820 m.kr. brúttó eða 592 m.kr. nettó ef frá eru talin framlög frá ríki vegna hlutdeildar í grjótvörn við Hofsóshöfn og Menningarsetri Skagfirðinga í Varmahlíð, vegna hönnunar og framkvæmda við Varmahlíðarskóla. Er um að ræða talsverða aukningu fjárfestinga á milli ára. Stærsta fjárfestingaverkefnið á næsta ári er framhald framkvæmda við Sundlaug Sauðárkróks, þ.e. upphaf framkvæmda við seinni áfanga laugarinnar. Aðrar stórar fjárfestingar eru borun hitaholu í Varmahlíð og tengdar framkvæmdir, hönnun og upphaf endurgerðar Varmahlíðarskóla, lok framkvæmda við nýjan leikskóla á Hofsósi, lóðaframkvæmdir honum tengdar og fullnaðarhönnun nýs íþróttahúss á Hofsósi, grjótvörn við höfnina í Hofsósi, hönnun og viðbygging við leikskólann Ársali á Sauðárkróki, og hönnun og útboðsgögn við menningarhús á Sauðárkróki. Þá verður ráðist í upphaf gatnagerðarframkvæmda við nýja götu á Sauðárkróki – Nestún.

Auk fyrrgreindra fjárfestinga er gert er ráð fyrir að verja um 101 m.kr í viðhald eigna Eignasjóðs sem er ríflega 16 m.kr. hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020.

Með auknum fjárfestingum á árinu 2021 styður Sveitarfélagið Skagafjörður við úrræði sem ríkisvaldið og Seðlabanki Íslands hafa lagt áherslu á með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna í núverandi efnahagsástandi. Auknar fjárfestingar styðja við áframhaldandi gott atvinnustig í sveitarfélaginu og er jafnframt horft til þess að fjárfestingar næsta árs styrki innviði samfélagsins og stuðli að áframhaldandi eflingu þess og fjölgun íbúa.

Gert er ráð fyrir 2,5% almennum gjaldskrárhækkunum hjá stofnunum sveitarfélagsins sem er lítillega undir áætlaðri hækkun vísitölu neysluverðs og talsvert undir áætluðum launahækkunum næsta árs.

Í fundargerð var eftirfarandi m.a. bókað:

„Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri kynnti fjárhagsáætlunina.
Fjárhagsáætlunin sýnir rekstraráætlun, sjóðsstreymi og áætlaðan efnahagsreikning fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð og stofnanir þess. Forsendur fjárhagsáætlunar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2021 og áætlunar fyrir árin 2022-2024 byggja meðal annars á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands varðandi verðlags- og launaþróun næstu ára.
Áætlun ársins 2021 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar nemi 7.378 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B hluta, þar af eru rekstrartekjur A-hluta áætlaðar 6.408 m.kr.
Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 7.201 m.kr., þ.a. A-hluti 6.382 m.kr. Rekstrarafgangur A- og B-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er áætlaður 431 m.kr, afskriftir nema 253 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 220 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætluð neikvæð, samtals með 43 m.kr. í rekstrartap.
Rekstrarafgangur A-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 180 m.kr, afskriftir nema 154 m.kr., fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 176 m.kr. Rekstrarniðurstaða A hluta sveitarsjóðs er því áætluð neikvæð um 151 m.kr.
Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2021, 10.635 m.kr., þ.a. eignir A-hluta 7.630 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 7.603 m.kr., þ.a. hjá A-hluta 6.068 m.kr. Eigið fé er áætlað 3.033 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall því 28,51. Eigið fé A-hluta er áætlað 1.562 m.kr. og eiginfjárhlutfall 20,47%.
Ný lántaka er áætluð 800 m.kr. hjá samstæðunni í heild og afborganir eldri lána og skuldbindinga verða um 479 m.kr. Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 1.338 m.kr. hjá samstæðunni, þar af 1.221 m.kr. hjá A-hluta. Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 103% og skuldaviðmið 82%.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 150 m.kr., og veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 386 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 251 m.kr. hjá samstæðunni í heild.“


Greinargerð sveitarstjóra má nálgast hér
 
Fjárhagsáætlun 2020-2024 má nálgast hér