Fara í efni

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar 2024-2027 samþykkt

20.12.2023

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2024, ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2025-2027 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar 13. desember sl.

Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóða. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf., Flokka ehf. og Eyvindarstaðarheiði ehf, auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð sveitarfélagsins, þ.e. Norðurá bs. og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið, stofnanir og hlutdeildarfélög þess.
Forsendur fjárhagsáætlunar Skagafjarðar 2024 og áætlunar fyrir árin 2025-2027 byggja meðal annars á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands varðandi verðlags- og launaþróun næstu ára.
Áætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Skagafjarðar nemi 8.811 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B hluta, þar af eru rekstrartekjur A-hluta áætlaðar 7.759 m.kr.
Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 8.098 m.kr., þ.a. A-hluti 7.317 m.kr. Rekstrarafgangur A- og B-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er áætlaður 1.005 m.kr, afskriftir nema 292 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 280 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætluð jákvæð, samtals með 434 m.kr. í rekstrarafgang.
Rekstrarafgangur A-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 616 m.kr, afskriftir nema 174 m.kr., fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 197 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 245 m.kr.
Eignir Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2024, 16.195 m.kr., þ.a. eignir A-hluta 12.191 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 11.678 m.kr., þ.a. hjá A-hluta 9.960 m.kr. Eigið fé er áætlað 4.517 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall því 27,89%. Eigið fé A-hluta er áætlað 2.232 m.kr. og eiginfjárhlutfall 18,31%.
Ný lántaka er áætluð 550 m.kr. hjá samstæðunni í heild og afborganir eldri lána og skuldbindinga verða 645 m.kr. Skuldir verða því greiddar niður um 95 m.kr. umfram lántöku á árinu 2024.
Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 1.797 m.kr. hjá samstæðunni, þar af 1.642 m.kr. hjá A-hluta. Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 128,35% og skuldaviðmið 100,75%.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 583 m.kr., og veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 963 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 164 m.kr. hjá samstæðunni í heild.

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar 2024-2027 má finna hér