Fara í efni

Fjölbreytt mannlíf í Skagafirði um helgina

12.08.2015
Frá sögudegi á Sturlungaslóð

Það verður mikið um að vera í Skagafirði um helgina, margir og fjölbreyttir viðburðir um allan fjörð.

Sögudagur á Sturlungaslóð verður á laugardaginn þar sem sögumaður tekur á móti gestum á Örlygsstöðum kl 13 og Ásbirningablót í Kakalaskála kl 19. Þar verður leikþáttur Einars Kárasonar, Skálmöld, sem dóttir hans Júlía Margrét flytur með honum. Nánar á heimasíðu Sturlungaslóðar.

Tónlistarhátíðin Gæran hefst með sólóistakvöldi á fimmtudaginn og á föstudaginn verður barnaskemmtun með Páli Óskari kl 17:30. Krakkarnir geta svo fengið að taka myndir af sér með kappanum eftir skemmtunina. Tónlistin mun svo óma í Sútunarverksmiðjunni á föstudags- og laugardagskvöldið. Sjá nánar á facebooksíðu Gærunnar. 

Hólahátíð hefst á föstudaginn þar sem sr. Sigurður Ægisson flytur erindi í Auðunarstofu um þrjár fyrstu Biblíuútgáfur Íslendinga. Á laugardaginn er pílagrímaganga frá Gröf á Höfðaströnd að Hólum og ganga yfir Hrísháls. Hátíðarmessa verður á sunnudeginum þar sem mag. theol Halla Rut Stefánsdóttir verður vígð til að gegna sóknarprestsembætti í Hofsós- og Hólaprestakalli. Nánari dagskrá er á heimasíðu Hóla.

Íþróttaáhugafólk fær sinn skref því meistaramót í frjálsum 15-22 ára fer fram á Sauðárkróki um helgina og einnig Íslandsmeistaramót í vallarbogfimi IFAA en það fer fram í Litla-Skógi og nágrenni hans. Annarskonar  skotfimi verður á skotsvæði Skotfélagsins Ósmanns en þar verður Norðurlandsmeistaramót í skeet.