Fara í efni

Fléttan - verkefni til stuðnings börnum

17.02.2014

Börn og fjölskyldur þeirra þurfa stundum á auknum stuðningi að halda og getur velgengni þeirra oltið á samvinnu foreldra, skóla og fagaðila er tengjast málum barna. Þegar margir koma að þjónustu barns/fjölskyldu, verður stuðningur og þjónusta við barnið markvissari ef allir eiga samstarf og samræma vinnubrögð. Fléttan gegnir þessu hlutverki. 

Fléttan er ráðgjafarteymi sem heldur utan um málefni langveikra barna og barna með ADHD/ADD. Markmið Fléttunnar er að styrkja og samþætta þau úrræði sem í boði eru og tryggja að þjónusta við börnin og fjölskyldur þeirra séu sem best löguð að þörfum viðkomandi.

Hlutverk ráðgjafarteymisins er að halda utan um þau úrræði og verkefni sem í boði eru og vera fjölskyldum og einstaklingum í sveitarfélaginu til ráðgjafar og stuðnings. 

Dæmi um úrræði Fléttunnar: 

  • Snillinganámskeið
  • ART verkefni fyrir börn og unglinga      með ADHD/ADD
  • Félagsleg úrræði
  • Iðjuþjálfun/ráðgjöf fyrir langveik      börn og börn með ADHD/ADD
  • Styrkir til að sækja um námskeið og      sumarbúðir
  • Stuðningsfulltrúar í íþrótta-,      menningar- og æskulýðsstarfi
  • PMT foreldranámskeið
  • Foreldrafélag/sjálfshjálparhópur      foreldra
  • Stuðningsfjölskyldur
  • Fræðsla fyrir starfsfólk
  • Stuðningurinn heim 

Í teyminu sitja í febrúar 2014: 

Aðalbjörg Hallmundsdóttir, félagsráðgjafi
Dóra Heiða Halldórsdóttir, ráðgjafarþroskaþjálfi
Margrét Björk Arnardóttir, náms- og starfsráðgjafi, Árskóla
Selma Barðdal, uppeldis- og sálfræðiráðgjafi
Þorvaldur Gröndal, forstöðumaður frístundamála 

Þau sem vilja kanna hvort Fléttan geti reynst börnum þeirra vel eru hvött til að hafa samband við einhvern ofangreindra starfsmanna. Ekki er fjallað um málefni einstakra barna nema forsjáraðilar fylli út tilvísunareyðublað. Eitt af markmiðum Fléttunnar er að hafa náið og gott samstarf við uppalendur og styrkja þá í hlutverki sínu. 

Fyllsta trúnaðar er gætt við meðferð þeirra mála sem koma fyrir teymið.