Formleg opnun hitaveitu
Fimmtudaginn 4. júní 2020 kl. 16:00 fór fram formleg opnun á heitavatnslögn frá Hofsósi að Neðri Ási í Hjaltadal og Ásgarðsbæjunum.
Góður hópur var viðstaddur athöfnina þegar formaður veitunefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Haraldur Þór Jóhannsson, ræsti dælu í gang í dælustöðinni í Hofsósi sem flytur heita vatnið að dælustöð á Sleitustöðum.
Verkfræðistofan Stoð ehf sá um umsjón og ráðgjöf og verktakar voru Vinnuvélar Símonar.
Hitaveitan mun auka lífsgæði íbúanna verulega en alls eru nú um 40 heimtaugar á lögninni og mun þeim mögulega fjölga síðar. Með heita vatninu var jafnframt lagður ljósleiðari sem mun tengja íbúa svæðisins betur við umheiminn.
Skagafjarðarveitur hafa frá sameiningu hitaveitna í Skagafirði staðið fyrir leit og dreifingu á heitu vatni á svæðinu, eða í tæp 20 ár, og munu halda því og uppbyggingu dreifikerfisins áfram til hagsbóta fyrir íbúa. Á undanförnum árum hefur verið unnið ötullega að því að tengja hinar dreifðu byggðir sveitarfélagsins heitu vatni og er nú svo komið að rúmlega 90% af heimilum í sveitarfélaginu eru kynt með heitu vatni.
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri var ánægður með áfangann. „Það er stórt afrek að vera komin á þann stað að geta boðið yfir 90% heimila í Sveitarfélaginu Skagafirði upp á húshitun með heitu vatni. Við teljum okkur geta útvíkkað dreifikerfi hitaveitunnar enn frekar og að því er unnið hörðum höndum. Það eru verulega aukin lífsgæði og bætt búsetuskilyrði sem felast í aðgengi að heitu vatni. Við höfum jafnframt oft náð að tryggja íbúum aðgengi að ljósleiðara samhliða hitaveituframkvæmdum og því um byltingu að ræða í hverjum nýjum áfanga sem við getum bætt við dreifikerfi okkar.“