Fornverkaskólinn í Skagafirði hlýtur Minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar
Á ársfundi Minjastofnunar Íslands 2023, þann 23. nóvember sl., veitti stofnunin Fornverkaskólanum í Skagafirði sérstaka viðurkenningu fyrir framlag þeirra til varðveislu á fornu byggingarhandverki.
Í tilkynningu frá Minjastofnun Íslands segir: Frá árinu 2007 hefur Fornverkaskólinn boðið upp á námskeið í gömlu byggingarhandverki með sérstaka áherslu á torf sem byggingarefni. Með námskeiðum sínum hefur skólinn miðlað þekkingu til áhugafólks og fagfólks innan minjavörslu á gömlu handverki og um leið stuðlað að varðveislu handverkshefða sem hafa verið á undanhaldi. Þekking á gömlum byggingaraðferðum er forsenda þess að hægt sé að halda við torfhúsaarfi þjóðarinnar. Fjölmargir erlendir aðilar sem starfa á sviði menningararfs hafa sótt Fornverkaskólann í gegnum árin. Oft á tíðum er sú þekking sem námskeiðin bjóða upp á ekki til staðar í þeirra heimalöndum og hefur Fornverkaskólinn því gegnt mikilvægu hlutverki á alþjóðavísu.
Fornverkaskólinn er á vegum Byggðasafns Skagfirðinga í samstarfi Tréiðnadeildar Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Háskólans á Hólum. Á undanförnum árum hefur skólinn fengið afnot af torfbæ ásamt útihúsum sem standa á Tyrfingsstöðum í Skagafirði og hefur viðhald bæjarins orðið viðfangsefni skólans á námskeiðum hans. Með Tyrfingsstaðaverkefninu og námskeiðum Fornverkaskólans hefur markvisst verið unnið að endurheimt og uppbyggingu torfbæjarins ásamt tilheyrandi útihúsum í túninu, í samvinnu við ábúendur.
Við óskum Fornverkaskólanum innilega til hamingju með viðurkenninguna og þökkum öllum þeim aðilum sem koma að þessu mikilvæga brautryðjendastarfi í þágu minjaverndar á Íslandi.
Sjá frétt á heimasíðu Minjastofnunar hér.