Forritarar framtíðarinnar styrkja Varmahlíðarskóla
Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar hefur þann tilgang að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins. Nýverið fór fram úthlutun styrkja en alls bárust 32 umsóknir, flestar frá grunnskólum. Styrkir sjóðsins eru í formi tölvubúnaðar og fjárstyrks til þjálfunar kennara til að búa þá betur undir forritunarkennslu fyrir nemendur.
Þeir ellefu skólar sem hlutu styrk úr sjóðnum í þessari úthlutun, samtals um 6,5 milljónir króna, eru: Varmahlíðarskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar eystri, Kársnesskóli, Höfðaskóli, Víkurskóli, Bíldudalsskóli, Vatnsendaskóli, Álfhólsskóli, Kópavogsskóli, Grunnskólinn í Hveragerði og Grunnskólinn í Þorlákshöfn.
Sjóðurinn var stofnaður árið 2014 og hefur síðan þá úthlutað styrkjum fyrir hátt í 40 milljónir króna til skóla landsins. Á árinu 2017 bættust öflugir bakhjarlar við Forritara framtíðarinnar en þeir eru fyrirtækin Marel og Advania. Aðrir bakhjarlar sjóðsins eru Reiknistofa bankanna, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, Cyan og KOM.
Þess má til gamans geta að árið 2015 fengu Árskóli og Grunnskólinn austan Vatna styrk úr sjóðnum.
„Þjóðir sem best standa hvað tækni varðar búa við ákveðið forskot. Forritun eða innsýn í forritun er nokkuð sem nýtist ungmennum til framtíðar, ekki ósvipað og fólk býr að því að hafa fengið kennslu í erlendum tungumálum, landafræði og öðrum námsgreinum,“ segir Sigfríður Sigurðardóttir, formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar, í tilkynningu.