Forskot á Sæluvikuna
Nú er vorboðinn ljúfi, Sæluvika Skagfirðinga, að hefjast og verður mikið um að vera nú um helgina en setningin er á sunnudaginn.
Nemendur 1.-4. bekkja Árskóla tóku forskot á sæluna og buðu eldri borgurum í sumarsælukaffi í skólann sinn í morgun.
Í kvöld verður Danslagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks á Mælifelli þar sem danslagaperlur frá árunum 1957-1971 verða fluttar. Það eru Hulda Jónasdóttir og Þórólfur Stefánsson, brottfluttir Króksarar, sem hafa valið lögin en ýmsir flytjendur munu koma fram.
Á morgun, laugardaginn 29. apríl, verður keppt um titilinn Ísmaðurinn 2017 á skíðasvæði Tindastóls og hefst dagskráin kl 11. Á sama tíma hefst Þjóðleikur í Miðgarði, leiklistarhátíð ungs fólks sem haldin er annað hvert ár. Verkefnið er samstarfsverkefni ýmissa aðila á landsbyggðinni við Þjóðleikhúsið.
Myndlistarsýning félaga í myndlistarfélaginu Sólon opnar kl 14 í Gúttó og í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra verður Náttúrudanssmiðja fyrir 16 ára og eldri. Strengjadagar hefjast í Hóladómkirkju kl 17 en þar koma fram Skagfirskir strengir auk gesta frá strengjadeild Tónlistarskólans á Akranesi. Dagskrá dagsins lýkur með Kótilettukvöldi Lions í íþróttahúsinu á Sauðárkróki og opnar húsið kl 19:30. Kvöldið er liður í söfnun Lionsklúbbanna í Skagafirði fyrir skynörvunarherbergi í Iðju á Sauðárkróki og verða í boði skemmtiatriði á skagfirska vísu með kótilettunum.
Þetta er sannkallað forskot á sælu(viku)na sem hefst formlega á sunnudaginn.