Forstöðumaður óskast á heimili fyrir fatlað fólk á Blönduósi
Forstöðumaður óskast á heimili fyrir fatlað fólk á Blönduósi
Sveitarfélagið Skagafjörður leitar að metnaðarfullum og áhugasömum einstaklingi sem vill þróa og leiða breytingar í þjónustu og starfsemi í búsetu fyrir fatlað fólk á Blönduósi. Forstöðumaður er einn af millistjórnendum fjölskylduþjónustu Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Verið er að vinna að breytingum á húsnæði með áherslu á meira einkarými með einstaklingsmiðaða aðstoð. Áhersla er lögð á að íbúum líði vel í þægilegu og öruggu umhverfi.
Upphaf starfs: 1. júní 2017 eða eftir samkomulagi. Um framtíðarstarf er að ræða.
Starfshlutfall: 100% starfshlutfall, unnið á dagvinnutíma.
Lýsing á starfinu: Starfið felst fyrst og fremst í stjórnun, áætlanagerð, rekstri og samhæfingu starfsemi stofnunar. Forstöðumaður ber ábyrgð á þjónustueiningu, innra starfi, starfsmannamálum, rekstri og samskiptum við aðstandendur og samstarfsaðila. Hann ber einnig ábyrgð á starfs-, þjónustu- og rekstraráætlunum einingar og veitir leiðsögn og ráðgjöf til þjónustunotenda og starfsmanna.
Menntunarkröfur: Háskólamenntun á sviði þroskaþjálfunar eða mennta- og félagsvísinda.
Hæfniskröfur: Reynsla og þekking í faglegri og rekstrarlegri stjórnun, áætlanagerð, rekstri, starfsmannahaldi og daglegri stjórnun er æskileg. Viðkomandi þarf að hafa góða vitund fyrir sjálfum sér, ríka ábyrgðartilfinningu, sýna virðingu og hafa framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum, vera tilbúinn til að tileinka sér nýjar hugmyndir og hafa metnað í starfi. Hreint sakavottorð er skilyrði.
Launakjör: Störfin henta konum jafnt sem körlum. Laun eru samkvæmt gildandi kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við hlutaðeigandi stéttarfélag.
Umsóknarfrestur er til og með 20. apríl 2017
Nánari upplýsingar: Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri málefna fatlaðs fólks, 455-6000, gretasjofn@skagafjordur.is.
Umsóknir: Umsókn ásamt ferilskrá, prófskírteini og leyfisbréfi skal skilað í gegnum heimasíðu sveitarfélagsins, www.skagafjordur.is (laus störf) eða í gegnum íbúagátt sveitarfélagsins. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.
Í upphafi árs 2016 var samþykktur samningur um sameiginlegt þjónustusvæði á Norðurlandi vestra um þjónustu við fatlað fólk. Á þjónustusvæðinu er Sveitarfélagið Skagafjörður leiðandi sveitarfélag og veitir fötluðu fólki, sem á lögheimili í aðildarsveitarfélögunum, þjónustu. Þjónusta innan svæðisins er veitt á jafnræðisgrundvelli og byggja ákvarðanir um veitingu hennar á mati á þjónustuþörf. Sömu viðmið gilda um þjónustustig á svæðinu öllu. Aðildarsveitarfélögin eru Akrahreppur, Blönduósbær, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Sveitarfélagið Skagaströnd.