Forvarnarteymi Sveitarfélagins Skagafjarðar
Forvarnarteymi Sveitarfélagsins Skagafjarðar hittist 6. október s.l. en teymið hittist mánaðarlega yfir vetrarmánuðina. Forvarnarteymið vinnur eftir þeirri hugmyndafræði að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Sú hugmyndafræði felur í sér mikilvægi þess að við sem samfélag látum okkur velferð barna og ungmenna varða og að enginn einn beri ábyrgð. Við berum öll ábyrgð.
Í teyminu sitja:
Þorvaldur Gröndal frístundastjóri, fyrir hönd Sveitarfélagsins Skagafjarðar
Sigríður Inga Viggósdóttir, fyrir hönd frístundar, Árvistar og Húss Frítímans
Jón Sigurmundsson, fyrir hönd skólaþjónustu Sveitarfélagsins Skagafjarðar
Sirrý Sif Sigurlaugardóttir, fyrir hönd félagsþjónustu Sveitarfélagsins Skagafjarðar
Aðalbjörg Hallmundsdóttir, fyrir hönd FNV
Margrét Helga Hallsdóttir, fyrir hönd FNV
Jóhann Bjarnason, fyrir hönd Grunnskólans austan Vatna
Kristbjörg Kemp, fyrir hönd Árskóla
Helga Rós Sigfúsdóttir, fyrir hönd Varmahlíðarskóla
Eva Óskarsdóttir, tengiliður starfsmanna FNV við Nemendafélag FNV
Sr. Sigríður Gunnarsdóttir, fyrir hönd kirkjunnar
Auk þess á lögreglan sæti í teyminu.
Á fundinum var farið yfir stöðuna eins og hún blasir við teyminu eftir sumarið og hverjar áherslurnar fyrir veturinn skuli vera. Framundan eru t.a.m. fræðsla á vegum Samtakanna ´78 fyrir nemendur og starfsmenn grunnskólanna, Ernuland - fræðsla um jákvæða líkamsímynd - verður með erindi í grunnskólunum í byrjun nóvember og FNV verður með fræðsludag 5. nóvember n.k.
Forvarnarteymið ræddi sérstaklega um áhyggjur sínar varðandi dvínandi hjálmanotkun meðal barna, hvort heldur sem er vegna rafknúinna farartækja eða reiðhjóla. Jafnframt eru uppi áhyggjur af því hvernig börn beita rafmagnshlaupahjólum og vespum. Svo virðist sem kunnátta og færni margra barna til að stýra þessum farartækjum sé ábótavant. Forvarnarteymið biðlar því til foreldra að þeir ræði við börnin sín um mikilvægi þess að nota hjálma og að nota þessi farartæki á réttan hátt.
Íbúar geta og mega gjarnan koma með ábendingar um það sem betur má fara í forvörnum og eru hvattir til að vera vakandi yfir mikilvægi samstarfs í forvarnarmálum.
Fyrir hönd forvarnarteymis,
Þorvaldur Gröndal
frístundastjóri