Fræðsludagur skóla í Skagafirði haldinn í 12. skipti
Fræðsludagur skóla í Skagafirði var haldinn í Miðgarði í gær. Þar kom saman starfsfólk leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskóla, starfsmenn á fjölskyldusviði og kjörnir fulltrúar fræðslunefndar. Fræðsludagurinn er árlegur viðburður í Skagafirði og er þetta í 12 sinn sem slíkur dagur er haldinn hátíðlegur. Tilgangur fræðsludags er fyrst og fremst að hefja nýtt skólaár á samveru og samtali um áherslur í skólamálum hverju sinni.
Þema dagsins var farsæld og vellíðan barna en ný lög um farsæld tóku gildi þann 1. janúar 2022. Meginmarkmið nýrra laga er að sjá til þess að öll börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana og er sveitarfélögum ætlað þrjú ár til að innleiða slíkt fyrirkomulag.
Selma Barðdal, fræðslustjóri, og Rakel Kemp, uppeldis- og fjölskylduráðgjafi, fóru yfir stöðu innleiðingar farsældarlaganna í Skagafirði og næstu skref í þeirri vinnu. Einnig sögðu þær frá ráðningu Margrétar Petru Ragnarsdóttur í starf tengiliðar farsældar en hún mun hafa viðveru í grunnskólunum. Margrét Petra hefur störf sem tengiliður þann 1. október nk.
Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og verkefnisstjóri hjá mennta – og barnamálaráðuneyti fjallaði um mikilvægi geðræktar í skólum og sagði frá vinnu sem snýr að því að skoða hvernig geðræktarstarfi er háttað í skólum landsins og hversu vel skólar eru í stakk búnir til þess að sinna slíku starfi.
Fjalar Freyr Einarsson og Ásgeir Beinteinsson, ráðgjafar hjá austurmiðstöð í Reykjavík fjölluðu um skólaforðun nemenda og leiðir til þess að bregðast við slíkum vanda. Niðurstöður ýmssa rannsókna hafa sýnt fram á að afleiðingar skólaforðunar geta verið alvarlegar og að mikilvægt sé að bregðast við þeim á fyrstu stigum.
Fjalar Freyr fjallaði sömuleiðis um hegðun barna og ungmenna, áskoranir og úrræði í skólum. Hann sagði samræmi aðgerða innan skóla skipta máli og að samvinna og samtal væri á meðal fagfólks. Lögð var áhersla á skýr fyrirmæli og eftirfylgni, virðingu í samskiptum og væntumþykju.
Ásmundur Einar Daðason, mennta og barnamálaráðherra lauk dagskrá með umfjöllun um farsæld barna og hvatningarorðum til skólasamfélagsins í Skagafirði um áframhaldandi innleiðingu og velgengni í störfum sínum.
Bryndís Lilja Hallsdóttir, nýr sviðsstjóri fjölskyldusviðs sleit deginum með því að taka undir orð ráðherra og þakka starfsfólki skólanna fagleg og góð störf.
Starfsfólk sem tók þátt í fræðsludeginum í ár var um 240 talsins. Vonandi hafa öll haft gagn og gaman af deginum og tekið með sér aukna þekkingu og gleði í veganesti fyrir nýtt skólaár.