Framkvæmdir í Safnahúsinu að hefjast
Nú standa fyrir dyrum miklar framkvæmdir við Safnahúsið við Faxatorg því búið er að skrifa undir samning við K-Tak ehf. um að reisa lyftuhús. Tvö tilboð bárust, frá K-Tak ehf. að upphæð 78.874.901 kr. og Trésmiðjunni Ýr ehf. að upphæð 79.661.043 kr. Framkvæmdir hefjast 7. nóvember en byrjað er að flytja efni og verkfæri á staðinn.
Áætluð verklok á húsinu eru 1. apríl 2015 í síðasta lagi og frágangur á lóð 15. júní.
Þetta er umfangsmikil framkvæmd þannig að loka þarf söfnunum á meðan hún stendur yfir. Síðasti opnunardagur er fimmtudagurinn 6. nóvember n.k. og eru notendur safnsins beðnir að skila inn öllum bókum sem eru í útláni fyrir þann tíma. Starfsmenn munu nýta þann tíma sem verður lokað til að skrá allan bókakost safnsins í Gegni landskerfi bókasafna. Ekki verða innheimtar sektir af bókum sem komnar eru fram yfir skiladag.
Héraðsskjalasafnið verður einnig lokað um óákveðinn tíma en starfsmenn munu svara fyrirspurnum og taka á móti gögnum eftir fremsta megni.
Hér er uppdráttur af Safnahúsinu