Framkvæmdum við dýpkun á Sauðárkrókshöfn að ljúka
Framkvæmdum við dýpkun á Sauðárkrókshöfn er að ljúka. Síðustu daga hefur verktaki verið að ljúka við dýpkun á svæði fyrir framan öldubrjót við hafnarmynnið.
Samtals hefur verið dælt um 20.000 m3 úr höfninni, úr fyrrnefndu svæði við hafnarmynnið og svæði innan hafnar. Dýpkun innan hafnarinnar gekk erfiðlega sökum þess hversu fínt efnið í botninum er og því erfitt og tímafrekt að dæla því um borð í skipið.
Dýpið á dýpkunarsvæðinu innan hafnar er nú á bilinu 8 til 8,5 m. Lokauppgjör verksins liggur ekki fyrir. Hluta efnisins var dælt í landfyllingu þar sem gamla smábátahöfnin var staðsett. Þeirri uppfyllingu er lokið eins og sjá má á meðfylgjandi mynd en eftir á að keyra þunnu lagi af burðarlagsefni ofan á sandinn.
Þess má geta að á fjárhagsáætlun þessa árs eru jafnframt 6 milljónir sem nota á í að bæta smábátaaðstöðu á Hofsósi.