Fara í efni

Fréttaannáll Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2019

09.01.2020
Skagafjörður í blíðskaparveðri sumarið 2019

Nú þegar árið 2020 er gengið í garð er ekki úr vegi að líta yfir öxl og skoða það sem stóð uppúr hjá Sveitarfélaginu Skagafirði árið 2019. Árið 2019 voru 175 fréttir og tilkynningar birtar á heimasíðu sveitarfélagsins. Hér að neðan verður stiklað á stóru og teknar saman fréttir sem vöktu athygli árið 2019.

Margt gerðist á árinu og er til að mynda fjallað um fyrirhugaðar nýbyggingar í sveitarfélaginu eins og nýr leikskóli, óveður, hin ýmsu verkefni sveitarfélagsins, Umhverfisdagar, fyrsti NPA samningurinn undirritaður og íbúafundir vegna aðalskipulags eru meðal þess sem kemur við sögu.

 

Janúar

Í upphafi árs var ráðið í stöðu hafnarstjóra og yfirhafnarvarðar. Var Dagur Þór Baldvinsson ráðinn hafnarstjóri og Pálmi Jónsson ráðinn yfirhafnarvörður. Einnig var Valur Valsson ráðinn í stöðu verkefnastjóra veitu- og framkvæmdasviðs. Stýrir hann innleiðingu ljósleiðaravæðingu í dreifbýli í Skagafirði.

Hvatapeningar hækkuðu úr 8.000 kr í 25.000 kr frá 1. janúar.

Opinn kynningarfundur um breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagins 2009-2021 var haldinn í Miðgarði 23. janúar og var síðar samþykkt í sveitarstjórn að auglýsa breytingatillöguna.

 

Febrúar

Dagur Kvenfélagskonunar var haldinn hátíðlegur í Skagafirði. Í tilefni dagsins skipulagði kvenfélagið Skarðshrepps viðburð þar sem fyrirlesarinn Pálmar Ragnarsson fjallaði um jákvæð samskipti.

Brunavarnir Skagafjarðar fögnuðu komu nýrrar slökkvibifreiðar og opnuðu húsakynni sín. Íbúum gafst kostur á að skoða nýju slökkvibifreiðina ásamt öllum þeim búnaði og tækjakosti sem Brunavarnir Skagafjarðar búa yfir. 

Sveitastjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar ásamt Bæjarstjórn Akureyrar skoruðu á stjórnvöld að hefja vinnu við undirbúning nýrra Tröllaskagaganga.

Ánægjulegar fréttir voru í febrúar þegar að fyrsti NPA-samningurinn í Skagafirði var undirritaður. Var það Gunnar Heiðar Bjarnason sem var fyrstur til að undirrita samning við Fjölskyldusvið Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

 Svavar Atli Birgisson og Gísli Sigursson við afhendingu bílsins


Mars

Verðlaunahafar í upplestrarkeppni

Auglýstar voru lóðir við nýja götu á Sauðárkróki, Melatún.

10. bekkur Árskóla sýndi leikritið Konungur ljónanna í Bifröst við góðar undirtektir.  

Stóra upplestrarkeppnin hjá 7. bekkjum grunnskóla Skagafjarðar var á sínum stað í mars. Nemendur úr Grunnskólanum austan Vatna voru í fyrstu tveimur sætunum, Njála Rún Egilsdóttir í fyrsta sæti og Patrekur Rafn Garðarsson í öðru og í þriðja sæti var Katrín Sif Arnarsdóttir úr Árskóla.

 


Apríl

Mikið var um íbúafundi í apríl. 
Opnir íbúafundir voru haldnir á vegum umhverfis- og samgöngunefndar um sorpmál í dreifbýli í Skagafirði. Fundirnir voru vel sóttir og gagnlegar umræður.

Haldnir voru íbúafundir um mótun menntastefnu Skagafjarðar. Voru fundirnir einnig vel sóttir og góðar umræður. 

Íbúar Skagafjarðar geta keypt ársmiða í Glaumbæ. Gildir miðinn í eitt ár frá kaupum hans óháð fjölda heimsókna. Með þessu er vonast til fólk venji komur sínar sem oftast á safnið.

Sæluvika Skagfirðinga var sett við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu á Sauðárkróki. Veitt voru Samfélagsverðlaun Skagafjarðar og var það Geirmundur Valtýsson sem fékk verðlaunin fyrir framlag sitt til tónlistar og menningar í Skagafirði.

 


Maí

Umhverfisdagar Skagafjarðar heppnuðust með eindæmum vel og frábært að sjá alla íbúa, fyrirtæki og félagasamtök leggja sitt að mörkum við að hreinsa umhverfið. Áskorandakeppni þar sem fyrirtæki og stofnanir fóru út að fegra sitt nærumhverfi og skora svo á aðra í gegnum samfélagsmiðla að gera slíkt hið sama tókst með eindæmum vel og sannaðist þar að margar hendur vinna létt verk. 

Ráðið var í stöðu leikskólastjóra Ársala. Var Aðalbjörg Þorgrímsdóttir ráðin í starfið.

Sveitarfélagið fylltist af félagsmálastjórum í maí þegar vorfundur Samtaka félagsmálastjóra á Íslandi var haldinn í Skagafirði.

Jóhann Gunnar Eyjólfsson nemandi í Árskóla varð í 3. sæti í stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og níundu bekkja í grunnskólum á Norðurlandi vestra og Tröllaskaga.

 


Júní

Í byrjun júní var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf milli sveitarfélagsins og lögreglunar um átak gegn heimilisofbeldi

Opnun Norðurstrandarleiðar var 8. júní og var boðið upp á strand yoga í Skagafirði.

17. júní var haldinn hátíðlegur að venju. Sólborg Una Pálsdóttir, héraðsskjalavörður, flutti hátíðarræðu og fjallkonan, sem í ár var Áróra Árnadóttir, nýstúdent frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, flutti ljóð.

 


Júlí

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar útnefndi Bjarna Haraldsson heiðursborgara Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Bjarni, betur þekktur sem Bjarni Har, er jafnframt fyrsti heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Byggðaráð veitti framkvæmdaleyfi fyrir Sauðárkrókslínu 1 og 2.

 


Ágúst

Sveitarfélagið Skagafjörður gerðist aðili að verkefninu Heilsueflandi Samfélag. Undirritaður var samningur milli sveitarfélagsins og Landlæknisembættisins á Fræðsludegi skólanna í Skagafirði 15. ágúst.

Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur færði öllum leikskólum Sveitarfélagsins Skagafjarðar veglega gjöf með þjálfunarefninu Lærum og leikum með hljóðin sem er ætlað að bæta framburð, auka orðaforða og undirbúa börn fyrir lestur.

Haldið var upp á 80 ára vígsluafmæli sundlaugarinnar í Varmahlíð. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá og má þar nefna Grettissund.

 Heilsueflandi samfélag

September

Nýir samningar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps var undirritaður í byrjun september. Samningarnir fjalla meðal annars um framkvæmd fjölmargra verkefna sem Sveitarfélagið Skagafjörður tekur að sér að annast fyrir Akrahrepp og einnig um þjónustu embættis skipulags- og byggingarfulltrúa.

Sveitarfélagið brást fljótt við fyrirspurn um að staðsetja bekk í miðju brekkunnar við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Fylgdi fyrirspurninni að einstaklingar sem nýta sér þjónustu dagdvalar aldraðra fari iðulega þessa leið og gott væri að geta hvílt sig á leiðinni upp brekkuna og notið útsýnisins.

Sveitarfélagið Skagafjörður og Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar veittu Umhverfisviðurkenningar Skagafjarðar í sjö flokkum. Tvenn verðlaun voru veitt fyrir lóð í þéttbýli og fengu eigendur Drekahlíðar 8 og Brekkutúns 4 umhverfisviðurkenningu og fengu hjónin Herdís Sæmundardóttir og Guðmundur Ragnarsson viðurkenningu fyrir einstakt framtak, en þau stóðu að því að reisa minnisvarða um Hrafna-Flóka í mynni Flókadals í Fljótum sem vígt var árið 2012.

 Bekkur FNV

Október

Undirritaður var samningur um Dagdvöl aldraðra í Skagafirði milli sveitarfélagsins og HSN. Samningurinn festir í sessi 20 ára samstarf að Dagdvöl aldraðra sé starfrækt í húsakynnum HSN á Sauðárkróki. Samningurinn kveður á að sveitarfélagið sjái alfarið um rekstur og þjónustu við dvalargesti en HSN leggur til og sér um rekstur húsnæðisaðstöðu. 

Opinn fundur um endurskoðun aðalskipulags var haldinn á Sauðárkróki og er áætlaður í öðrum byggðakjörnum á nýju ári. Einar E. Einarsson, formaður skipulags- og byggingarnefndar, kynnti fyrirhugaða vinnu við endurskoðun aðalskipulags.  Aðrir með framsögu voru Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri, Eva Pandora Baldursdóttur og Sigurður Árnason sérfræðingar hjá Byggðastofnun og Guðrún Lárusdóttir formaður Búnaðarsambands Skagfirðinga.

Fyrsti viðburður á vegum Heilsueflandi Samfélags var haldinn í lok október þegar Sölvi Tryggvason hélt fyrirlestur sinn „Sigrum streituna“. Vel var mætt á fyrirlesturinn og ljóst að mikill áhugi er á heilsu í Skagafirði.  

11 skagfirsk fyrirtæki voru á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2019.

Heilsueflandi Samfélag


Nóvember

Kvenfélag Sauðárkróks færði Dagdvöl aldraðra á Sauðárkróki veglegan snyrtistól að gjöf. Mun stóllinn nýtast vel bæði fyrir skjólstæðinga og starfsfólk Dagdvalar með mun bættri aðstöðu og þægindum, en stólinn er hægt að hækka og lækka og aðlaga eftir aðstæðum. 

UT starfsdagur var haldinn í Árskóla á Sauðárkróki í nóvember samhliða UTÍS ráðstefnunni sem er orðin árlegur viðburður í Skagafirði. Á ráðstefnunni halda helstu sérfræðingar á sviði upplýsingatækni í skólamálum fyrirlestra og stýrðu þeir jafnframt vinnustofum fyrir grunnskólakennara í Skagafirði. 

Opnað var fyrir útboð í nýjan leikskóla á Hofsósi. Leikskólinn verður staðsettur í viðbyggingu við grunnskólann á Hofsósi. Um er að ræða 206 m2 viðbyggingu sem verður undir starfsemi leikskólans.  

Í nóvember var einnig samþykkt viljayfirlýsing um uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð. Stefnt er að uppbyggingu leik-, grunn og tónlistarskóla á einum stað í núverandi húsnæði Varmahlíðarskóla.

Undirritaður var samstarfssamningur milli sveitarfélagsins og Félags eldriborgara í Skagafirði. Samningurinn byggir á hugmyndafræði um valdeflingu, sem felst fyrst og fremst í því að skapa þær ytri aðstæður sem þarf til að efla frumkvæði, sjálfstæði og áhuga og auka virkni og þátttöku eldri borgara í samfélaginu.

 

 

Desember

Desember byrjaði kröftuglega veðurfarslega séð og var mikið óveður í Skagafirði. Mikið tjón varð í óveðrinu og fóru rafmagnslínur illa með tilheyrandi rafmagnsleysi. Daglegt líf í Skagafirði fór úr skorðum og lá skólahald niðri í nokkra daga. Sveitastjórn Skagafjarðar sendi frá sér bókun þegar að veðrinu slotaði um öryggi á raforku og höfnum. Þar er skorað á stjórnvöld að ráðast án tafar í stórfellt átak uppbyggingar raforku- og fjarskiptainnviða á Norðurlandi og jafnframt mikilvægt að ráðast í endurbætur á Sauðárkrókshöfn.

Fjárhagsáætlun 2020-2024 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar. Helstu fjárfestingar á tímabilinu eru bygging nýs leikskóla á Hofsósi, áframhaldandi framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks, hönnun og útboðsgögn við menningarhús á Sauðárkróki, hönnun íþróttahúss á Hofsósi, hönnun leik-, grunn- og tónlistarskóla á einum stað í núverandi húsnæði Varmahlíðarskóla svo eitthvað sé nefnt.