Fréttir af framkvæmdum
Sumrin eru ávallt nýtt vel til framkvæmda og er sumarið í ár þar engin undantekning. Nýjar götur og ný hús rísa og fjölbreyttar framkvæmdir erum í gangi um allan Skagafjörð.
Hér er smá samantekt á spennandi framkvæmdum sem ýmist er lokið eða standa yfir:
Listaverk á Kirkjutorgi
Nýtt listaverk hefur litið dagsins ljós á suðurgafli Miklagarðs á Kirkjutorgi. Það er hópur áhugamanna undir heitinu Skemmtilegri Skagafjörður sem stendur að baki verkinu og fengu þau listamanninn Juan Picture Art til að mála vegginn. Verkefnið var styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra (SSNV), Skagafirði og eigendum Miklagarðs. Skemmtilegri Skagafjörður eru óháð samtök Skagfirðinga sem eiga það sameiginlegt að vilja fegra umhverfi sitt og aðstoða sveitarfélagið við að gera umhverfið fallegra og skemmtilegra með viðburðum og verkefnum sem þessum.
Listaverkið á Miklagarði. Á myndinni eru listamaðurinn ásamt Auði Ingólfsdóttur, meðlimi í hópnum Skemmtilegri Skagfjörður. Mynd: Selma Hjörvarsdóttir.
Útivistarsvæði í Sauðárgili
Undirbúningsvinna við byggingu útivistarskýlis neðst í Litla skógi er hafin og er jarðvinnu vegna undirstaða lokið. Stefnan er sú að viður sem notaður verður við byggingu mannvirkisins verði sem mest úr skagfirskum skógum. Gert er ráð fyrir að útivistarskýlið og svið verði reist á þessu ári en frekari framkvæmdir bíði seinni tíma. Til stendur, að auk útivistarskýlis, verði á svæðinu svið, grillhús, eldstæði, snyrtingar, leiktæki o.fl. Verður svæðið kærkomin viðbót í Litla skógi og má búast við að það eigi eftir að nýtast vel til útivistar og fyrir hinar ýmsu samkomur.
Hér verður eldstæði og svið.
Hér mun útivistarkýli rísa.
Ný aðstöðuhús á Hofsósi og í Varmahlíð
Rekstraraðilar tjaldsvæðanna á Hofsósi og í Varmahlíð, þau Hildur og Halldór, opnuðu á dögunum ný aðstöðuhús fyrir gesti tjaldstæðanna. Þar er setaðstaða og möguleiki á að elda sér mat, þvo fatnað o.fl. Bætir þetta aðstöðu gesta á tjalstæðunum svo um munar.
Aðstöðuhúsið á tjaldstæðinu í Varmahlíð. Mynd af vef tjaldstæðanna í Skagafirði.
Aðstöðuhúsið á tjaldstæðinu á Hofsósi. Mynd af vef tjaldstæðanna í Skagafirði.
Sundlaug Sauðárkróks
Eins og flestum Skagfirðingum er kunnugt standa yfir framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks þar sem unnið er að því að gera laugina fjölskylduvænni. Unnið er að framkvæmdum í áföngum og þær framkvæmdir sem nú standa yfir eru uppsteypa á nýju laugarsvæði sunnan við núverandi sundlaug, með barnalaug, buslulaug, kennslulaug, lendingarlaug, köldum potti, ásamt tæknirými í kjallara.
Laugarsvæði sundlaugarinnar mun stækka til suðurs með setlaugum, kennslulaug og rennibrautum. Kennslulaugin verður 7,5 m x 7,5 m og mun nýtast í sundkennslu fyrir börn á grunnskólaaldri. Setlaugar verða gerðar í kringum kennslulaugina ásamt lendingarsvæði fyrir rennibrautir. Byggður verður varanlegur kaldur pottur milli heitu pottanna tveggja sem nú eru við sundlaugina en notast hefur verið við plastkar hingað til.
Byggðar verða þrjár rennibrautir sem henta mismunandi aldurshópum. Sú stærsta verður um 11 metra há og verður turn hennar klæddur gleri, með led lýsingu ásamt því að vera upphitaður.
Sundlaugin sjálf mun fá upplyftingu og verður hún flísalögð ásamt því að laugarkerfi og hreinsikerfi verði endurnýjuð.
Frá framkvæmdum við sundlaugina. Myndir: Ólafur Torfason starfsmaður sundlaugarinnar.
Hönnun sundlaugarinnar.