Fara í efni

Fréttir úr skólastarfi á óvissutímum

03.04.2020

Eins og allir vita hafa takmarkanir verið talsverðar á skólahaldi vegna Covid-19. Reynt hefur verið að halda skólastarfi í eins föstum skorðum og mögulegt er miðað við aðstæður. Aðstæður í skólum eru eðli málsins samkvæmt afar misjafnar. Þannig er skólahald í Grunnskólanum austan Vatna með þeim hætti að allir nemendur geta komið í skólann daglega þar sem hægt hefur verið að aðskilja hópana í samræmi við tillögur sóttvarnarlæknis. 

Skóladagar í Varmahlíðarskóla og Árskóla hafa verið óvanalegir að því leyti að nemendur mæta og/eða fara heim á öðrum tímum en venjulega til þess að koma í veg fyrir blöndun hópa. Nemendahópar eru fámennari en vanalega, ekki hefur verið hægt að bjóða upp á list– og verkgreinar og íþróttir/hreyfing hefur verið með óhefðbundnum hætti. Nemendahópar eru í sömu kennslustofunni allan daginn og reynt hefur verið að brjóta upp daginn með fjölbreyttum verkefnum. Eldri nemendur hafa mætt minna í skólann en sinna í staðinn fjarnámi í rafrænu námsumhverfi sem hefur gengið vonum framar í öllum grunnskólunum.

Í leikskólunum Tröllaborg og Birkilundi hefur verið hægt að bjóða öllum börnum upp á vistun daglega. Í leikskólanum Ársölum hefur deildum verið skipt upp í minni hópa  og vistunartími barnanna verið skertur vegna tilmæla sóttvarnarlæknis. Starf Tónlistarskóla Skagafjarðar hefur einnig farið að stórum hluta fram með fjarkennslusniði, sem gengið hefur vel. Það er óhætt að segja að stjórnendur og starfsmenn leik-,  grunn- og tónlistarskóla í Skagafirði eigi mikið hrós skilið fyrir gríðarlega jákvæðni, gott samstarf, sveigjanleika og lausnamiðun.

Það reynir á fólk í þessum aðstæðum. Það reynir á okkur öll, óháð þeim hlutverkum sem við gegnum. Öll erum við að reyna að gera okkar besta og öll erum við ákveðin í að komast í gegnum þennan tíma með samstöðu og jákvæðni að leiðarljósi.  Um það bera þær fjölmörgu kveðjur vitni sem skólarnir hafa fengið frá foreldrum/forsjáraðilum sem kunna vel að meta hvernig starfsfólk skólanna leysir úr því flókna verkefni að sinna börnunum í leik og námi við þessar óvenjulegu aðstæður. Hér eru nokkur sýnishorn: 

„Okkar langar til að koma á framfæri ánægju með starfsemi leikskólans síðastliðnar vikur. Öll viðbrögð við þessum óvenjulegu aðstæðum hafa verið til fyrirmyndar og greinilega vel unnið að því að láta starfið ganga upp innan þess þrönga ramma sem settur hefur verið“.

,,...langaði bara að hrósa ykkur fyrir flott viðbrögð og óska ykkur góðs gengis í þessum erfiðu aðstæðum. Finnst skólinn bregðast hóflega og skynsamlega við".

„Þakka ykkur innilega fyrir að halda úti ykkar vandaða skólastarfi, vel skipulögðu við erfiðar aðstæður. Börnin hafa misst út marga daga í vetur vegna veðurs, og þau þarfnast menntunar fyrir framtíð sína. Þetta er ekki auðvelt núna og þið eigið heiður skilinn, starfsfólk - og nemendur. Takk.“

„Mig langar til að hrósa þér og þínu starfsfólki fyrir frábæra vinnu og frábært viðmót. Það er dásamlegt að fara út í daginn vitandi það að barnið manns sé í góðum höndum. Áfram þið“

„Ég vildi byrja á því að þakka fyrir gott upplýsingaflæði frá ykkur og sendi ég ykkur rafrænt knús fyrir góða starfið sem þið vinnið“

„Þið standið ykkur vel í þessu ástandi og við höfum fullan skilning á öllum ykkar aðgerðum. Gangi ykkur áfram vel“


Samstaða sem þessi er ómetanleg og gerir daglegt starf okkar allra mun auðveldara. Sérstaklega í ljósi þess að ekki er enn ljóst hvenær samkomubanni verður endanlega aflétt. Gert er ráð fyrir að skólastarf verði með sama hætti að loknu páskafríi og fram til 4. maí samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisráðherra.  Páskaleyfið verður öðruvísi en áður. Lítið um ferðalög, samkomur og þess háttar afþreyingu. Það er því mikilvægt að huga að því hvað fjölskyldan getur gert saman og hvernig við getum látið okkur líða vel án þess að fara yfir þau mörk sem okkur eru sett í þessari veirutíð. Gleðilega páska og njótið ánægjulegra samverustunda með fjölskyldunni. Munum að vera góð við hvert annað.