Frídagur verkamanna og afmæli Skagfirðingarsveitar
Föstudagurinn 1. maí hefur upp á ýmislegt að bjóða fyrir alla sem vilja gera sér dagamun þennan frídag verkamanna. Stéttarfélögin í Skagafirði verða með hátíðardagskrá í bóknámshúsi FNV á Sauðárkróki kl 15 og ræðumaður dagsins er Björn Snæbjörnsson formaður Iðju-Einingar og Starfsgreinasambandsins. Að venju verða bornar fram veitingar og boðið upp á skemmtiatriði.
Björgunarsveitin Skagfirðingasveit fagnar þeim merka áfanga í ár að 50 ár eru liðin frá stofnun hennar. Í tilefni dagsins verður opið hús í Sveinsbúð þar sem saga sveitarinnar verður rifjuð upp og búnaður og aðstaða verður til sýnis.
Skotfélagið Ósmann verður með opið á skotsvæðinu á Reykjaströnd milli kl 13 og 16 þar sem starfsemin verður kynnt. Áhugafólk um handavinnu getur lagt leið sína í Kakalaskálann í Kringlumýri að skoða bútasaumssýninguna sem þar er uppi eða brugðið sér í Maddömukot á Króknum þar sem handverk er til sölu og heitt á könnunni. Það er bílsskúrssala á Hólmagrund 4, bókamarkaður hjá Lafleur og leiksýning í Bifröst kl 17.
Sæluvikutónleikar verða í íþróttahúsinu á Sauðárkróki kl 20 þar sem flutt verða íslensk dægurlög í flutningi valinkunnra söngvara bæði heimamanna og aðkomumanna, m.a. koma fram Birgitta Haukdal, Kristján Gíslason, Jógvan Hansen, Róbert Óttarsson og Sigvaldi Gunnarsson.
Það er úr nógu að velja !