Fuglastígskort fyrir Norðurland vestra
Út er komið fuglastígskort fyrir Norðurland vestra þar sem merktir eru inn 17 áhugaverðir staðir fyrir fuglaskoðunarfólk. Staðirnir eru frá Borðeyri í Hrútafirði í vestri að Þórðarhöfða í Skagafirði í austri. Verkefnið er unnið af Ferðamálasamtökum Norðurlands vestra í samvinnu við Selasetur Íslands, Ferðamálafélag V-Hún, Ferðamálafélag A-Hún, Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði og Ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Verkefnið er styrkt af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra og hefur verkefnastjórn verið í höndum Selaseturs Íslands. Verkefnið var styrkt af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra.
Fuglaskoðun er ört vaxandi áhugamál um allan heim og eru vonir bundnar við að fuglastígurinn muni efla ferðamennsku á Norðurlandi vestra og víkka út þann hóp ferðamanna sem hingað kemur. Einnig eru vonir bundnar við að ferðatímabilið muni lengjast t.d. á vorin þegar öll tún fyllast af helsingjum, gæsum og álftum og á haustin þegar fuglarnir hópast saman til að undirbúa flugið á vetrarstöðvarnar.
Nánar má lesa um fuglastígskortið á heimasíðu Selaseturs Íslands.