Fara í efni

Starfsmenn Barnaverndarþjónustu mið-Norðurlands hittust í Húnaþingi vestra

19.10.2023
Á myndinni eru frá hægri: Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir félagsmálastjóri, Sigrún Líndal Þrastardóttir ráðgjafi og iðjuþjálfi, Sara Lind Kristjánsdóttir félagsmálastjóri, Hrafnhildur Guðjónsdóttir félagsráðgjafi, Helga Helgadóttir ráðgjafi, Sigrún Elva Benediktsdóttir ráðgjafi, Hjörtur Hjartarson deildarstjóri félagsmáladeildar og Sigurður Þór Ágústsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs. Á myndina vantar Anton Sheel Birgisson sálfræðing.

Starfsfólk Barnavernarþjónustu Mið – Norðurlands hittist hjá fjölskyldusviði Húnaþings vestra á Hvammstanga nú í október. Venjulega er fundað með vikulegum fjarfundum en nú var ákveðið að hittast og fara einnig yfir samstarfið sem hófst 1. janúar sl. með samstarfi sex sveitarfélaga á Norðurlandi, frá Hrútafirði í vestri að Eyjafirði í austri. Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag og ber ábyrgð á barnavernd í nánu samstarfi við aðildarsveitarfélögin. Íbúar sem heyra undir þjónustuna eru um 9.400, þar af eru um 1.900 börn.

Starfsmenn þjónustunnar eru níu og samanstanda af starfsmönnum fyrri barnaverndarnefnda sem lagðar voru niður um áramótin með nýrri löggjöf. Yfirmenn félagsþjónustu í Húnaþingi vestra, Austur – Húnavatnssýslu, Skagafirði og Fjallabyggð mynda fagráð þjónustunnar og stýra mótun hennar. Vikulegir teymisfundir ákvarða málsmeðferð einstakra barnaverndarmála.

Markmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð.
Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:
     a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
     b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
     c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Sérstök tilkynningarskylda er lögð á fólk sem starfar með börnum, t.d. starfsmenn skóla og heilsugæslu, að ógleymdri lögreglunni.
Auk þess að funda saman var farið í kynnisferð í Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga og skoðuð ný og glæsileg viðbygging sem tekin var í notkun árið 2021.