Fara í efni

Fyrirhugað verkfall Kjalar, 9. og 10. mars 2020

06.03.2020
Skerða þarf þjónustu í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins sem og í íþróttahúsum komi til verkfalla.

Fyrirhugað verkfall félagsmanna Kjalar verður að öllu óbreyttu í næstu viku; mánudaginn 9. mars og þriðjudaginn 10. mars. Það hefst á miðnætti og lýkur á miðnætti (tveir sólarhringar).

Ef samningar nást fyrir mánudag verður ekki af verkfalli og starfsemi helst óbreytt í stofnunum sveitarfélagsins.

Félagsmenn Kjalar eru ríflega 100 talsins hjá Sveitarfélaginu Skagafirði svo ljóst er að verkfallsaðgerðirnar munu hafa víðtæk áhrif á þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir íbúum. Misjafnt er eftir stofnunum hvernig áhrifa gætir, en í flestum tilvikum er um að ræða styttri opnunartíma og/eða skerta þjónustu. Einhverjar stofnanir þurfa þó að loka alveg á meðan verkfall stendur.

Félagsmálasvið hefur fengið undanþágur frá verkfallsaðgerðum fyrir starfsfólk Kjalar sem sinnir viðkvæmustu þjónustunni er snýr að umönnun fatlaðs fólks og aldraðra. Það þýðir að heimili fyrir fatlað fólk, iðjur, dagdvöl aldraðra og heimaþjónusta eru rekin að mestu leyti með hefðbundnum hætti.

Skerða þarf þjónustu í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins sem og í íþróttahúsum. Hús frítímans, sundlaug Sauðárkróks og sundlaug Varmahlíðar verða lokaðar en sundlaugin á Hofsósi verður opin. Vistun barna á leikskólum verður skipt milli daga og matarþjónusta í skólum gæti raskast og þurfa þá nemendur að koma með nesti í skólann. Nánari upplýsingar um slíkt verða sendar frá skólastjórnendum. Foreldrar og forráðamenn greiða ekki leikskólagjöld fyrir þann tíma sem barn fær ekki vistun vegna verkfalls og ekki heldur fyrir máltíðir sem falla niður.

Á veitu- og framkvæmdasviði verður skert þjónusta í þjónustumiðstöð og Skagafjarðarveitum. Afgreiðsla Skagafjarðarveitna verður lokuð. Bent er á netfangið: skagafjordur@skagafjordur.is.

Afgreiðsla ráðhúss verður eingöngu opin kl. 09:00-12:00 báða dagana og verður ekki hægt að svara síma utan þess tíma. Bent er á netfangið: skagafjordur@skagafjordur.is.