Góð aðsókn í Hús frítímans
Hús frítímans á Sauðárkróki var opnað eftir breytingar í október síðastliðnum og hefur aðsókn í húsið verið góð það sem af er þessu ári. Á heimasíðu hússins segir að allir aldurshópar séu að nýta sér húsnæðið á einn eða annan hátt.
Frá janúar og út mars hafa um það bil 4.000 gestir komið í Hús frítímans en til samanburðar voru rúmlega 3.300 gestir árið 2015.
Heimsóknir eldri borgara eru yfir 1.100 talsins og ungmenna í 4.-10. bekk, sem sækja skipulagt starf á vegum hússins, um 1.700.
Frekar rólegt hefur verið í afmælishaldi í húsinu eftir framkvæmdirnar en þó hafa rúmlega 300 gestir komið í afmæli frá byrjun janúar.
Aðrir hópar, fundir og ráðstefnur telja tæplega 900 heimsóknir.
Inn í þessum tölum er ekki sá fjöldi sem mætir á fundi á efri hæðina sem var nýlega tekin í notkun.
Starfsfólk Húss frítímans er mjög ánægt með góða aðsókn.