Grænbók um byggðamál til umsagnar
Grænbók um byggðamál, sem ætlað er að veita upplýsingar um núverandi stöðu byggðamála, hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Leitast er við að svara því hvernig núgildandi byggðaáætlun hefur reynst og hverjar séu helstu áskoranir næstu 15 ára. Almenningur hefur tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar um grænbókina en frestur til að skila umsögn er til og með 25. janúar 2021.
Á síðu Stjórnarráðsins segir að um sé að ræða fyrstu grænbók, sem tekin hefur verið saman um byggðamál í takt við stefnumótunarferli Stjórnarráðsins og samræmingu áætlana á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála.
Grænbókin var á dagskrá 948. fundar Byggðarráðs Skagafjarðar og var eftirfarandi bókun lögð fram:
„Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar framkominni grænbók um byggðamál. Um er að ræða afar brýnan málaflokk sem snertir ákaflega marga þætti innviða landsins alls.
Meginmarkmið grænbókarinnar er að byggðir og sveitarfélög um land allt verði sjálfbær og að þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins. Áherslur og leiðir eru einnig brýnar, þ.e. að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt.
Byggðarráð leggur áherslu á hversu gríðarlega mikilvægt það er að styrkja mikilvæga innviði landsins, s.s. aðgang að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu og hjúkrunarrýmum, tækifæri til fjölbreyttrar menntunar, tengingu heimila og atvinnulífs við öruggt raforkukerfi sem mismunar ekki íbúum landsins hvað gjaldskrár varðar, eflingu og stækkun dreifisvæðis hitaveitna, og stuðning við nýsköpun og sprotastarfsemi, svo fátt eitt sé nefnt. Allt þetta stuðlar að styrkingu byggða og atvinnulífs um land allt.
Í dag búa um 64% Íslendinga á höfuðborgarsvæðinu en sambærilegt hlutfall í nágrannalöndum okkar er 20-36%. Eðlilegt er því að stjórnvöld beiti sér fyrir jafnari búsetuskilyrðum um land allt og að fólk hafi val um að búa á þeim stað sem það kýs, án þess að það bitni á aðgengi að grunninnviðum sem hvert samfélag á að búa við. Byggðarráð hvetur stjórnvöld til dáða við að framfylgja og innleiða markmið og áherslur grænbókarinnar sem allra fyrst.“