Guðríður Þorbjarnardóttir kemur enn víða við
Ánægjuleg sending barst með pósti í gær en þar var að finna kennslubók frá útgáfuforlaginu Heinemann. Bókin sem ber titilinn "Into the Unknown: Bold Women Who Explored the World", fjallar eins og gefið er til kynna um nokkrar konur sem voru frumkvöðlar á meðal landkönnuða heimsins.
Bókin er gefin út í 1 milljón eintaka og er markhópurinn skólabörn á aldrinum 10-12 ára. Ætlunin er að bókin verði notuð við kennslu í allt að 10 ár.
Ástæða þess að bókin barst okkur í hendur er sú að Byggðasafn Skagfirðinga heimilaði útgáfufyrirtækinu afnot af mynd í eigu safnsins til að nota í bókina. Myndin er af minnismerkinu í Glaumbæ af merkiskonunni Guðríði Þorbjarnardóttur og syni hennar Snorra en fyrsti kafli bókarinnar fjallar einmitt um Guðríði og ferðir hennar, m.a. til Ameríku.