Fara í efni

Hátíðarhöld á þjóðhátíðardaginn

16.06.2017
Frá 17. júní hátíðarhöldum á Flæðunum á Sauðárkróki

17. júní, þjóðhátíðardag okkar Íslendinga, ber upp á laugardag að þessu sinni og verður ýmislegt í boði í tilefni dagsins. Hátíðar- og skemmtidagskrá á Sauðárkróki hefst við Skagfirðingabúð þar sem unga kynslóðin getur fengið andlitsmálun áður en skrúðgangan heldur af stað kl 12:45 að Flæðunum við Faxatorg þar sem dagskrá hefst kl 13.

Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans að Bifröst flytur hátíðarræðu, fjallkonan flytur ljóð og Aron Brink ásamt fleirum verður með tónlistaratriði. Hoppukastalar verða á staðnum og krakkarnir geta fengið að fara á hestbak.

Í tilefni þess að 20 ár eru liðin síðan Upplýsingamiðstöðin og Alþýðulist opnuðu í handverkshúsinu í Varmahlíð verður heitt á könnunni, pönnsur og handverk frá kl 9-18 og gestum boðið að koma og samgleðjast þessum merka áfanga.

Mörgum finnst ómissandi að fara á veitingastað á þjóðhátíðardaginn og kaupa sér gott með kaffinu en þjóðhátíðarkaffi að hætti Áshúss og kaffihlaðborð á Kaffi Krók eru í boði kl 14-17.

Gleðilega þjóðhátíð!