Fara í efni

Ný hitaveituhola í landi Hverhóla

06.12.2018
Unnið við borholuna á Hverhólum. Mynd Skagafjarðarveitur

Síðastliðna helgi var byrjað að bora nýja hitaveituholu í landi Hverhóla í Lýtingsstaðahreppi hinum forna en tilgangur holunnar er að auka rekstraröryggi hitaveitunnar. Holan er 118 m djúp  og benda fyrstu mælingar til þess að vatnsmagn í holunni sé töluvert meira en í þeirri sem nýtt er í dag segir á vef Skagafjarðarveitna.

Hitastigið á vatninu er svipað og í núverandi holu eða um 66°C. Þegar verið var að ljúka við borun holunnar um hádegi þriðjudaginn 4. desember myndaðist samgangur á milli nýju holunnar og þeirrar sem fyrir var. Afleiðingarnar urðu þær að óhreinindi komust í núverandi holu sem ollu því að dælan í holunni hætti að virka og vatnslaust varð á hitaveitukerfinu. 

Var brugðið á það ráð að blása lofti eftir stálrörum í nýju holuna þannig að vatn þrýstis upp í topp holunnar. Vatnið var síðan leitt í stórt kar þaðan sem því var dælt í loftskiljutank og síðan inn á dreifikerfi hitaveitunnar. Nýrri dælu verður komið fyrir í eldri holunni á næstu dögum og á vef Skagafjarðarveitna segir að búast megi við einhverjum truflunum á meðan en notendur verði upplýstir um gang mála. Nánar má lesa um framkvæmdir á vef Skagafjarðarveitna.