Í dag eru vetrarsólstöður
Kl. 10:44 í dag eru vetrarsólstöður á norðurhveli jarðar. Þá er halli norðurhvelsins frá sólinni í hámarki, sólin syðst á himinhvolfinu og lægst á lofti. Á morgun tekur daginn að lengja á ný.
Fyrst í stað lengist dagurinn á Sauðárkróki um 15 sekúndur, þá 41 sekúndu og svo 67 sekúndur á aðfangadag. Skeikað getur fáeinum sekúndum til eða frá eftir því hvar í Skagafirði þú ert. Dagurinn lengist meira síðdegis en árdegis og raunar rís sólin seinna en á vetrarsólstöðum fyrst í stað.
Þessar upplýsingar eru fengnar frá Þorsteini Sæmundssyni stjörnufræðingi og af vef Stjörnufræðivefsins þar sem er gríðarlegt magn af upplýsingum um allt sem viðkemur stjörnufræði. Við þökkum Þorsteini og aðstandendum Stjörnufræðivefsins fyrir upplýsingarnar og hvetjum ykkur um leið til að kynna ykkur allt það fróðlega efni sem til er um stjörnufræði.