Íbúafundur á Hofsósi um verndarsvæði í byggð
Boðað er til íbúafundar í félagsheimilinu Höfðaborg miðvikudaginn 30. maí kl. 17:00 – 18:00 til kynningar á verkefninu verndarsvæði í byggð á Hofsósi. Sveitarfélagið hlaut styrk frá Minjastofnun Íslands til að vinna tillögur að verndarsvæði í byggð á Sauðárkróki og Hofsósi.
Verkefnið skiptist í skráningu húsa og fornleifa ásamt greinargerð þar sem metið er varðveislugildi og gerðir skilmálar um vernd og uppbyggingu innan svæðisins.
Verkefnið byggist á lögum sem sett voru árið 2015 um verndarsvæði í byggð. Tilgangur þeirra er að stuðla að verndun einstakra bæjarhluta í kaupstöðum og bæjum landsins með það að markmiði að vernda menningarsögulegt og listrænt gildi einstakra bæjarhluta um ókomna tíð.
Á fundinum verður verklag og aðferðafræði verkefnisins kynnt og leitað samráðs við íbúa.
Íbúar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta.
Skipulags- og byggingarfulltrúi
Jón Örn Berndsen