Fara í efni

Íbúafundur á Sauðárkróki um verndarsvæði í byggð

15.11.2017
Verndarsvæði í byggð - gamli bærinn á Sauðárkróki

Boðað er til íbúafundar í fundarsal sveitarfélagsins í Húsi frítímans þriðjudaginn 21. nóvember kl 17 til kynningar á verkefninu verndarsvæði í byggð á Sauðárkróki. Sveitarfélagið hlaut styrk frá Minjastofnun Íslands árið 2015 til að vinna tillögur að verndarsvæði í byggð á Sauðárkróki og Hofsósi.

Verkefnið skiptist í húsakönnun, fornleifaskráningu og greinargerð þar sem metið er varðveislugildi og gerðir skilmálar um vernd og uppbyggingu innan svæðisins. Á þessum fyrsta íbúafundi um verkefnið verða kynntar tillögur um verndun norðurhluta gamla bæjarins á Sauðárkróki, farið yfir stöðuna og leitað samráðs við íbúa og eru áhugasamir hvattir til að mæta.

Verkefnið byggist á lögum sem sett voru árið 2015 um verndarsvæði í byggð og er tilgangur þeirra að stuðla að verndun einstakra bæjarhluta í kaupstöðum og bæjum landsins með það að markmiði að vernda menningarsögulegt og listrænt gildi einstakra bæjarhluta um ókomna tíð.