Íbúafundur um búsetuskilyrði í Sveitarfélaginu Skagafirði
Er gott að búa í Skagafirði?
Á fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem haldinn var þann 24. apríl 2015, var samþykkt að ráðast í gerð könnunar á búsetuskilyrðum í Sveitarfélaginu Skagafirði þar sem m.a. væri leitað skýringa á fólksfækkun á svæðinu.
Leitað var til Capacent til að vinna greinargerð um málið og var ákveðið að nálgunin yrði tvíþætt. Í fyrsta lagi að greina hverjir eru núverandi styrkleikar Skagafjarðar sem búsetusvæðis og í öðru lagi hvaða þættir það eru sem valda því að íbúum hefur fækkað eins og raun ber vitni. Í þessu sambandi var horft til atvinnutækifæra á svæðinu en einnig til grunninnviða samfélagsins, s.s. heilbrigðisþjónustu, skólamála og húsnæðismála.
Á grundvelli greiningarinnar er ætlunin að móta stefnu til framtíðar og aðgerðaráætlun þar sem byggt er á styrkleikum sveitarfélagsins og þeim tækifærum sem til staðar eru, samhliða því sem reynt er að vinna bug á þeim veikleikum sem greiningin leiðir í ljós og stuðlað hafa að fólksfækkun.
Til að kynna niðurstöður þessarar vinnu og heyra sjónarmið íbúa er boðað til íbúafundar fimmtudaginn 3. september nk. kl. 17 á Mælifelli. Þar kynna fulltrúar frá Capacent skýrsluna og niðurstöður hennar, auk þess sem nefndarmenn í atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd sitja fyrir svörum.