Fara í efni

Íbúafundur um mótun skólaumhverfis í Varmahlíð

24.02.2021
Unnið var í hópastarfi á fundinum.

Íbúafundur um mótun skólaumhverfis í Varmahlíð var haldinn í gærkvöldi við góðar undirtektir íbúa. Auglýst var eftir áhugasömum einstaklingum til að taka þátt í undirbúningi í mótun skólaumhverfis í Varmahlíð. Markmiðið er að ná fram sjónarmiðum ólíkra hagsmunahópa í vinnu við gerð þarfagreiningar vegna leik-, grunn- og tónlistarskóla og hönnunar á umhverfi skólans.

 Á fimmta tug íbúa tóku þátt í fundinum sem var stýrt í gegnum fjarfund af VA arkitektum, sem samið hefur verið við um að leiða hönnunarvinnuna. Þátttakendum var skipt upp í 9 hópa sem dreift var um húsnæði Varmahlíðarskóla. Hver hópur fékk það verkefni að ræða framtíð skólahalds á svæðinu út frá mismunandi sjónarhornum. Ýmis mál voru rædd í hópunum og margar tillögur og hugmyndir lagðar fram. Í lok fundarins skiluðu hóparnir afrakstri umræðna til VA arktitekta sem munu nýta næstu daga til þess að yfirfara gögn fyrir næsta íbúafund.

 Verkefnastjórn um uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð þakkar öllum þeim sem gáfu sér tíma til þess að taka þátt á fundinum kærlega fyrir sitt framlag og hvetur sömuleiðis til þátttöku á næsta íbúafundi sem haldinn verður að viku liðinni eða þriðjudaginn 2. mars kl. 20:00 í Varmahlíðarskóla.