Íbúar Norðurlands vestra móta framtíð landshlutans í nýrri sóknaráætlun fyrir árin 2020-2024
Ný Sóknaráætlun Norðurlands vestra fyrir árin 2020-2024 var samþykkt samhljóða á haustþingi samtakanna sem fram fór þann 18. október sl. á Sauðárkróki. Vinna við gerð áætlunarinnar hefur staðið yfir frá því á vordögum. Lögð var rík áhersla á víðtækt samráð við íbúa og aðra hagaðila og má ætla að vel á fimmta hundrað manns hafi komið að gerð áætlunarinnar með einum eða öðrum hætti. Í áætluninni er unnið úr frá fjórum lykilmálaflokkum: Atvinnuþróun og nýsköpun, menningarmálum, umhverfismálum og að síðustu menntun og lýðfræðilegri þróun. Í hverjum málaflokki eru sett markmið og jafnframt tilgreind dæmi um aðgerðir.
Úthlutunarferli Uppbyggingarsjóðs fer af stað strax í kjölfar samþykktarinnar og er frestur til að skila inn umsóknum til 20. nóvember. Jafnframt verður farið í að skilgreina áhersluverkefni til næstu ára út frá áætluninni.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri SSNV segir nýja sóknaráætlun metnaðarfullt plagg sem muni ef vel er haldið á spöðum skila landshlutanum miklum ávinningi. „Það víðtæka samráð sem viðhaft var gefur áætluninni aukið vægi enda í henni áherslur íbúa í forgrunni“ segir Unnur.
Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í þeim koma fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Í sóknaráætlunum landshluta er mælt fyrir um svæðisbundnar áherslur sem taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og, eftir atvikum, annarri opinberri stefnumótun.
http://www.ssnv.is/is/soknaraaetlun/soknaraaetlun-nordurlands-vestra-2020-2024