Iðjan fær Ipad spjaldtölvu að gjöf
Ladies Circle klúbburinn á Sauðárkróki gaf í dag, hlaupársdag, þjónustuþegum og starfsfólki Iðjunnar nýja Ipad spjaldtölvu. Spjaldtölvuna notar fólkið í þjálfun og hugmyndavinnu í listsköpun svo fátt eitt sé nefnt og kemur tækið sér sérstaklega vel. Iðjan er vinnustaður þar sem fólk með fötlun vinnur að fjölbreyttum verkefnum. Í Iðjunni fá einstaklingarnir einnig þjálfun, umönnun og afþreyingu við hæfi.
Ladies Circle er samtök kvenna á aldrinum 18 - 45 ára um allan heim, sem vilja stuðla að því að konur kynnist hver annarri, ólíkum reynsluheimum og margvíslegri menningu. Einkunnarorð Ladies Circle eru vinátta og hjálpsemi. Við tilefnið sögðu Herdís Sæmundardóttir, sviðsstjóri á fjölskyldusviði og Jónína Gunnarsdóttir forstöðumaður Iðjunnar nokkur orð og þökkuðu fyrir gjöfina. Sveitarfélagið Skagafjörður, starfsfólk Iðju og þjónustuþegar þakka Ladies Circle konum fyrir höfðinglega gjöf.
Herdís Sæmundardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs þakkar fyrir gjöfina.
Herdís Sæmundardóttir, Jónína Gunnarsdóttir forstöðumaður Iðjunnar og Gunnhildur Gísladóttir að athöfn lokinni.